Besta deild karla í fótbolta hefst eftir tvo daga og hefur deildin sent frá sér aðra stiklu í nýrri auglýsingaherferð deildarinnar.
ÍA er í aðalhlutverki í stiklunni en liðið átti gott tímabil sem nýliði í fyrra og hafnaði í fimmta sæti.
Skagamenn voru ekki langt frá Evrópusæti og hefði liðið farið í úrslitaleik við Val um sæti í Evrópu í lokaumferðinni með sigri gegn Víkingum í næstsíðustu umferðinni.
Víkingar unnu hins vegar leikinn, 4:3, á fáránlegan hátt með marki frá Danijel Dejan Djuric í blálokin. Fyrr í uppbótartíma leiksins skoraði Skagamaðurinn Breki Þór Hermannsson en Elías Ingi Árnason dómari dæmdi markið af fyrir litlar sakir.
Mikil umræða skapaðist í kjölfarið en í nýjustu auglýsingu deildarinnar enda Jón Þór Hauksson þjálfari Skagamanna og Viktor Jónsson framherji liðsins í óþægilegri lyftuferð með Elíasi.
ÍA hefur leik í Bestu deildinni á útivelli gegn Fram næsta sunnudag.
Hér að neðan má sjá stikluna.