Verður erfiðast fyrir mömmu

Magnús Már og Anton Ari Einarssynir.
Magnús Már og Anton Ari Einarssynir. Ljósmynd/Samsett/mbl.is/Árni Sæberg og Eyþór

Bræðurnir Anton Ari og Magnús Már Einarssynir eru spenntir fyrir því að mæta hvor öðrum í upphafsleik Bestu deildar karla í knattspyrnu á laugardagskvöld.

Anton Ari er markvörður Íslandsmeistara Breiðabliks og Magnús Már er þjálfari nýliða Aftureldingar sem spila sinn fyrsta leik í efstu deild í sögu karlaliðsins.

Báðir eru þeir uppaldir hjá Aftureldingu og léku með liðinu á sínum tíma.

„Það verður bara gaman. Ég er spenntur fyrir því að þetta byrji. Auðvitað er það sérstaklega skemmtilegt að mæta Eldingunni og náttúrlega Magga.

Svo er mamma allt í öllu í Eldingunni og einhvern veginn öll fjölskyldan þarna. Það verður bara stemning og stuð,“ sagði Anton Ari í samtali við mbl.is.

Skrifað í skýin

Magnús Már tók í sama streng í samtali við mbl.is á kynningarfundi Bestu deildarinnar í gær.

„Það var skrifað í skýin að þetta yrði fyrsti leikur og að mæta honum. Ég held að það sé miklu erfiðara fyrir mömmu og pabba heldur en okkur af því að þau vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga,“ sagði hann.

„Já, það er alveg laukrétt hjá honum,“ sagði Anton Ari. „Það er sérstaklega mamma af því að maður hefur séð hana horfa á Liverpool og önnur lið sem hún hefur ekki alveg jafn mikil fjölskyldutengsl við. Þá er hún alveg snögg upp og mikill spenningur og æsingur.

Ég get ímyndað mér að þetta verði erfitt fyrir hana og sömuleiðis pabba, sem er samt aðeins rólegri en hún svona almennt. Vonandi geta þau skemmt sér samt, að þetta verði ekki of mikið stress.“

Móðir þeirra Hanna Símonardóttir er þekkt fyrir störf sín sem sjálfboðaliði hjá Aftureldingu í áratugi og hefur auk þess haft veg og vanda af Liverpool-skólanum hér á landi um langt árabil.

Erla Eiríksdóttir formaður knattspyrnudeildar og Hanna Símonardóttir fagna sæti Aftureldingar …
Erla Eiríksdóttir formaður knattspyrnudeildar og Hanna Símonardóttir fagna sæti Aftureldingar í Bestu deildinni á síðasta tímabili. mbl.is/Ólafur Árdal

Ekki mikið öðruvísi

„En fyrir okkur er þetta þannig séð eins og hver annar leikur. Undirbúningurinn hjá mér er nákvæmlega eins og sé um hvern annan markmann í deildinni að ræða,“ sagði Magnús Már og Anton Ari samsinnti því.

„Ég held að þetta verði ekkert það mikið öðruvísi þó hann verði á hliðarlínunni. Það væri kannski öðruvísi ef við værum báðir á miðjunni í sitt hvoru liðinu og værum að takast á allan leikinn. Ég verð mestmegnis 40 til 65 metrum frá honum þannig að þetta er ekkert það mikil breyting.

Það er kannski meira aðdragandinn og eftir leikinn sem verður aðeins meira öðruvísi af því að þetta er bróðir minn að þjálfa hitt liðið. Það er aðallega það myndi ég halda en það kemur í ljós á laugardaginn.“

Þekki styrkleika hans og veikleika

„Hann er frábær markmaður en ég veit líka alla hans styrkleika og veikleika. Ég hef séð marga leiki með honum þannig að það verður bara fínt að mæta honum á laugardaginn,“ sagði Magnús Már um yngri bróður sinn.

Spurður hvort hann byggi yfir einhverjum upplýsingum um styrkleika og veikleika Magnúsar Más sem gætu nýst Breiðabliki í leiknum sagði Anton Ari svo ekki vera:

„Ég held ekki sko. Ég er ekki með eitthvað leikplan sem sýnir fram á akkilesarhælinn hans Magga. Því miður fyrir okkur þá held ég að hann standi kannski betur að vígi hvað það varðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert