Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu fer niður um fjögur sæti og er nú í 74. sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.
Ísland tapaði tveimur leikjum gegn Kósovó í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í síðasta mánuði og er nú komið niður fyrir þjóðir á við Bosníu og Hersegóvínu, Norður-Írland, Svartfjallaland og Grænhöfðaeyjar.
Þetta er versta staða íslenska landsliðsins í tólf ár, eða síðan í mars árið 2013. Þá var Ísland í 92. sæti heimslistans en stökk síðan upp um nítján sæti og upp í 73. sætið í apríl 2013. Eftir það lá leiðin upp á við þar til Ísland komst í 18. sætið í febrúar 2018 sem er besta staða íslenska karlalandsliðsins frá upphafi.
Heimsmeistarar Argentínu eru sem fyrr í efsta sætinu og Evrópumeistarar Spánar fara upp um eitt sæti og eru nú í öðru sæti.
Danmörk er efst Norðurlandaþjóða í 21. sæti, Svíþjóð er í 28. sæti og Noregur fer upp um fimm sæti og er nú í 38. sæti.
Finnland er í 69. sæti og Færeyjar eru í 141. sæti listans.