Hlín Eiríksdóttir, landsliðskona í fótbolta, er spennt fyrir leikjunum við Noreg og Sviss í Þjóðadeildinni. Ísland mætir Noregi á morgun og Sviss á þriðjudag á Þróttarvelli.
„Ég hlakka til. Það er ekki langt síðan við vorum saman síðast og það sem við unnum í þá er enn þá ferskt. Það er líka gaman að spila aftur á heimavelli. Ég hlakka mjög til að fara í þessa tvo mikilvægu leiki,“ sagði Hlín við mbl.is.
Ísland er með eitt stig í riðlinum eftir jafntefli við Sviss, 0:0, og tap fyrir Frakklandi, 3:2, á útivelli í febrúar. Nú á Ísland tvo heimaleiki í Laugardalnum.
„Maður er vanur öllu. Við höfum spilað á völlum sem eru ekkert frábærir, þótt það sé svolítið síðan því við höfum aðallega verið að spila við stórar þjóðir upp á síðkastið. Gervigrasið í Laugardalnum er mjög fínt og hefur ekki slæm áhrif á okkar leik.
Ég vil frekar spila hér en á Spáni. Það er mikilvægt að vera með okkar fólk í stúkunni og mikilvægt fyrir unga fótboltakrakka að geta verið með okkur,“ sagði Hlín.
Hún er á leiðinni í sína fyrstu landsleiki án landsliðsfyrirliðans Glódísar Perlu Viggósdóttur, sem er meidd.
„Það verður skrítið en við hugsum ekki um það í miðjum leik. Það kemur maður í manns stað og við erum með sterka leikmenn í miðvarðarstöðunum. Við leysum það en söknum hennar á sama tíma.“