Norskir blaðamenn voru mjög hissa og spurðu þjálfara og leikmann kvennalandsliðsins hvað þeim þætti um að öðruvísi kröfur væru gerðar í kvenna- og karlafótbolta.
Ísland tekur á móti Noregi á Þróttarvelli í A-deild Þjóðadeildar Evrópu klukkan 16.45 í dag og verður leikurinn í beinni textalýsingu á mbl.is.
Íslenska karlalandsliðið mætti Kósovó í umspili Þjóðadeildarinnar í síðasta mánuði en heimaleikur Íslands þurfti að fara fram í Murcia á Spáni því enginn völlur hérlendis var leikhæfur, samkvæmt UEFA.
Hins vegar eru öðruvísi kröfur gerðar í kvennaboltanum, sem norskir fjölmiðlamenn voru ekki hæstánægðir á blaðamannafundi norska landsliðsins í gær.
Ingrid Syrstad Engen, sem spilar hjá Barcelona, var spurð út í þetta af blaðamanni VG, en þar sagði hún að henni fyndist að það ættu að vera gerðar sömu kröfur báðum megin.
mbl.is spurði Gemmu Grainger þjálfara út í þetta og hún tók í sama streng, en sagðist ekki sérstaklega pæla í þessu.
„Þetta er ekki eitthvað sem ég hugsa endilega um áður en fólk spyr mig. En mér finnst gott að umræðan sé virk um þetta.
Ef ákveðnar kröfur eru gerðar fyrir karlalandslið finnst mér að þær ættu að vera sömu kvennamegin.
Við viljum spila á velli sem býður upp á mestu gæðin, en annars vil ég ekki einbeita mér of mikið að þessu,“ sagði þjálfarinn.