Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum eins og gert hefur verið síðustu fimm árin.
Á meðfylgjandi mynd er knattspyrnumaðurinn Sigursteinn Gíslason frá Akranesi að taka við víkingahorninu og gjöfum á lokahófi KSÍ á Hótel Íslandi haustið 1994 þegar tilkynnt var að leikmenn deildarinnar höfðu kosið hann leikmann ársins í efstu deild.
Ekki er sérlega algengt að bakvörðum hlotnist slíkar viðurkenningar í íþróttinni en gefur innsýn í hversu þýðingarmiklu hlutverki Sigursteinn gegndi Íslandsmeistaraliði ÍA. Myndina tók Þorkell Þorkelsson sem lengi myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is.
Sigursteinn var einstaklega sigursæll og er í hópi sigursælustu leikmanna í 113 ára sögu Íslandsmótsins. Varð hann níu sinnum Íslandsmeistari og þarf að fara aftur að síðari heimsstyrjöldinni til að finna annað eins. Með ÍA 1992-1996 og síðar með KR 1999, 2000, 2002 og 2003.
ÍA setti met þegar liðið vann fimm ár í röð og var Sigursteinn einn fjögurra sem var byrjunarliðsmaður öll árin ásamt Alexander Högnasyni, Haraldi Ingólfssyni og Ólafi Adolfssyni. Sigursteinn varð jafnframt bikarmeistari með ÍA 1993 og 1996 og með KR árið 1999.
Hér heima lék hann með ÍA, KR og Víkingi Reykjavík en erlendis með Stoke City. Fór þangað á láni frá KR eftir að Íslendingar höfðu eignast félagið og hans gamli þjálfari Guðjón Þórðarson varð knattspyrnustjóri Stoke. Sigursteinn þjálfaði karlalið Leiknis Reykjavíkur á árunum 2009-2011.
Alls lék Sigursteinn 233 leiki í efstu deild og skoraði 13 mörk. Hann lék jafnframt 22 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
Íslandsmótið í knattspyrnu 2025 hefst í kvöld þegar Breiðablik og Afturelding mætast í efstu deild karla á Kópavogsvellinum klukkan 19:15.