Gamla ljósmyndin: Nífaldur Íslandsmeistari

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um eins og gert hef­ur verið síðustu fimm árin. 

Á meðfylgj­andi mynd er knatt­spyrnumaður­inn Sig­ur­steinn Gísla­son frá Akra­nesi að taka við vík­inga­horn­inu og gjöf­um á loka­hófi KSÍ á Hót­el Íslandi haustið 1994 þegar til­kynnt var að leik­menn deild­ar­inn­ar höfðu kosið hann leik­mann árs­ins í efstu deild. 

Ekki er sér­lega al­gengt að bakvörðum hlotn­ist slík­ar viður­kenn­ing­ar í íþrótt­inni en gef­ur inn­sýn í hversu þýðing­ar­miklu hlut­verki Sig­ur­steinn gegndi Íslands­meist­araliði ÍA. Mynd­ina tók Þorkell Þorkels­son sem lengi myndaði fyr­ir Morg­un­blaðið og mbl.is. 

Sig­ur­steinn var ein­stak­lega sig­ur­sæll og er í hópi sig­ur­sæl­ustu leik­manna í 113 ára sögu  Íslands­móts­ins. Varð hann níu sinn­um Íslands­meist­ari og þarf að fara aft­ur að síðari heims­styrj­öld­inni til að finna annað eins. Með ÍA 1992-1996 og síðar með KR 1999, 2000, 2002 og 2003.

ÍA setti met þegar liðið vann fimm ár í röð og var Sig­ur­steinn einn fjög­urra sem var byrj­un­arliðsmaður öll árin ásamt Al­ex­and­er Högna­syni, Har­aldi Ing­ólfs­syni og Ólafi Ad­olfs­syni. Sig­ur­steinn varð jafn­framt bikar­meist­ari með ÍA 1993 og 1996 og með KR árið 1999. 

Hér heima lék hann með ÍA, KR og Vík­ingi Reykja­vík en er­lend­is með Stoke City. Fór þangað á láni frá KR eft­ir að Íslend­ing­ar höfðu eign­ast fé­lagið og hans gamli þjálf­ari Guðjón Þórðar­son varð knatt­spyrn­u­stjóri Stoke. Sig­ur­steinn þjálfaði karlalið Leikn­is Reykja­vík­ur á ár­un­um 2009-2011. 

Alls lék Sig­ur­steinn 233 leiki í efstu deild og skoraði 13 mörk. Hann lék jafn­framt 22 A-lands­leiki fyr­ir Íslands hönd. 

Íslands­mótið í knatt­spyrnu 2025 hefst í kvöld þegar Breiðablik og Aft­ur­eld­ing mæt­ast í efstu deild karla á Kópa­vogs­vell­in­um klukk­an 19:15. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert