„Það hefur verið á brattann að sækja hjá okkur, síðustu ár,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliði Vals í Bestu deild karla í fótbolta, í samtali við mbl.is.
Valsmönnum er spáð þriðja sæti deildarinnar í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en Valsmenn höfnuðu einnig í þriðja sætinu á síðustu leiktíð.
Hólmar Örn, sem er 34 ára gamall, sneri heim úr atvinnumennsku árið 2022 og samdi við Valsmenn en hann bíður enn þá eftir sínum fyrsta bikar með félaginu.
„Gengið hefur verið upp og ofan og maður ætlaði sér stærri hluti með liðinu, það er klárt mál,“ sagði Hólmar Örn.
„Maður er mjög hungraður í árangur eftir þessi fyrstu þrjú tímabil sín á Hlíðarenda. Við gömlu kallarnir á Hlíðarenda erum mjög hungraðir í árangur og við viljum að sjálfsögðu ljúka ferlinum á bikar, hvort sem nú gerist eftir eitt, fimm eða tíu ár.
Aldurinn hefur ekki þau áhrif á mann að hungrið í árangur minnki eitthvað, ef eitthvað er þá eykst það eftir því sem árin líða,“ sagði Hólmar Örn í samtali við mbl.is.
Valsmönnum er spáð 3. sæti í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en Valsmenn taka á móti Vestra í 1. umferð Bestu deildarinnar, á morgun, sunnudaginn 6. apríl, klukkan 14 á Hlíðarenda.