Afturelding mætir til leiks í fyrsta skipti í efstu deild karla í fótbolta á árinu en liðið tryggði sér sæti í Bestu deildinni með sigri á Keflavík í úrslitum umspils 1. deildarinnar á Laugardalsvelli síðasta haust.
Síðan þá hefur félagið fengið til sín Axel Óskar Andrésson frá KR, Oliver Sigurjónsson frá Breiðabliki, Þórð Gunnar Hafþórsson frá Fylki og markvörðinn Þórð Ingason frá KFA en þeir hafa allir reynslu úr efstu deild.
Ásgeir Frank Ásgeirsson og Oliver Jensen eru farnir frá Aftureldingu, sem hélt öðrum leikmönnum liðsins innan félagsins.
„Við höfum fengið virkilega flotta leikmenn. Þeir eru ekki margir en svo héldum við nánast öllum okkar leikmönnum. Við þurftum ekki að bæta of miklu við okkur því við erum með leikmenn sem náðu þessum árangri á síðustu leiktíð. Við teljum að þeir séu nógu góðir til að spila í efstu deild þótt þeir hafi ekki allir gert það áður.
Það er mikilvægt að halda í gildin okkar frá því í fyrra og sérstaklega þegar við horfum á leikstílinn okkar. Við erum góðir í að spila boltanum saman og við tengjum vel hver við annan. Það er gott að við erum búnir að vera í nokkur ár saman,“ sagði Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar, við mbl.is.
Afturelding hafnaði í 10. sæti í spá Morgunblaðsins sem birt var í miðvikudagsblaðinu. Afturelding mætir Íslandsmeisturum Breiðabliks í sínum fyrsta leik í efstu deild frá upphafi á Kópavogsvelli í kvöld klukkan 19.15.