„Það er mjög svekkjandi að missa af byrjun tímabilsins,“ sagði Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra í Bestu deild karla í fótbolta, í samtali við mbl.is.
Elmar Atli var úrskurðaður í tveggja mánaða bann frá fótbolta af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ þann 18. mars fyrir brot á veðmálareglum Knattspyrnusambandsins.
Elmar Atli veðjaði meðal annars á 31 leik í Bestu deild karla, fjóra í deildabikar karla og einn leik í bikarkeppninni en þó aldrei á leiki með sínu liði.
„Ég tek fulla ábyrgð á gjörðum mínum og það er mitt að taka á þessu,“ sagði Elmar Atli.
„Félagið gerði æfingaplan fyrir mig sem ég mun fylgja, þangað til ég kemst aftur inn á völlinn. Þetta er bara eins og hvert annað verkefni sem þarf að tækla. Það þýðir ekki að brotna við svona lagað.
Ég fylgist auðvitað með fréttum og varð var við umræðuna. Ég hef samt reynt eftir fremsta megni að einbeita mér að sjálfum mér í öllu þessu ferli en það er erfitt líka þegar þetta er út um allt. Skaðinn er skeður og ég tek fulla ábyrgð á því,“ bætti Elmar Atli við í samtali við mbl.is.
Vestra er spáð 12. og neðsta sætinu í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en Vestramenn heimsækja Val í 1. umferð Bestu deildarinnar á morgun, sunnudaginn 6. apríl, klukkan 14 á Hlíðarenda.