Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar, er elstur í leikmannahópi liðsins í ár en hann varð 36 ára gamall í mars.
Stjörnunni er spáð fimmta sæti í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en liðið hafnaði í fjórða sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.
Hann gekk til liðs við félagið frá FH árið 2023 og er á leið inn í sitt þriðja tímabil í Garðabænum en hann er uppalinn hjá Breiðabliki í Kópavoginum og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2010.
„Eftirvænting er alltaf jafn mikil, sérstaklega svona rétt fyrir mót,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is.
„Nóvembermánuðurinn er líklega erfiðastur í þessu. Þetta er jú eitt lengsta undirbúningstímabil í heimi eins og margoft hefur komið fram. Að spila fótbolta og að vera hluti af þessum hóp er það skemmtilegasta sem maður gerir.
Ég skal samt alveg viðurkenna það að undirbúningstímabilið verður alltaf erfiðara og erfiðara með árunum,“ bætti Guðmundur við í samtali við mbl.is.
Stjörnunni er spáð 5. sæti í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en Garðbæingar taka á móti FH í 1. umferð Bestu deildarinnar, mánudagskvöldið 7. apríl, kl. 19.15 í Garðabænum.