Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH í fótbolta, er þokkalega bjartsýnn fyrir komandi tímabil í Bestu deildinni. Hafnarfjarðarliðið mætir nokkuð breytt til leiks.
Ólafur Guðmundsson og Logi Rafn Róbertsson eru farnir í atvinnumennsku og Finnur Orri Margeirsson er hættur. Yngri leikmenn eru komnir í staðinn.
„Það má segja að félagið sé í enduruppbyggingu. Við reynum að spila á eins ungu liði og hægt er, fyrir utan mig og Böðvar (Böðvarsson). Annars er markmiðið að vera í efri hlutanum og skoða svo hlutina.
Það eru ákveðin félög í þessari deild sem hafa yfirburði fjárhagslega og þegar kemur að breidd hópanna. Ef allir haldast heilir hjá okkur út tímabilið getum við endað í efri hlutanum og jafnvel gert atlögu að Evrópusæti. Við reynum að ná topp sex og svo vinnum við út frá því,“ útskýrði Björn Daníel í samtali við mbl.is og hélt áfram:
„Við höfum misst leikmenn sem eru með mikla reynslu úr efstu deild, leikmenn eins og Finn Orra, Ólaf og Loga. Ólafur og Logi eru ungir en voru búnir að spila fullt af leikjum. Við fengum m.a. Birki Val og svo Mathias sem er hörkumarkvörður. Svo er leikmaður eins og Bragi sem hefur bara spilað í neðri deildunum en komið vel inn í þetta.
Vonandi ná ungu leikmennirnir að springa út. Þeir geta tekið Kjartan Kára sér til fyrirmyndar og hvernig hann hefur ár eftir ár orðið betri og betri. Aðalstefna FH í dag er að búa til góða leikmenn sem koma úr minna umhverfi en efsta deildin er,“ sagði Björn Daníel.
FH hafnaði í 7. sæti í spá Morgunblaðsins sem birt var í miðvikudagsblaðinu. FH mætir grönnum sínum í Stjörnunni í Garðabænum í 1. umferðinni annað kvöld, mánudagskvöld, klukkan 19.15.