„Gylfi hefur komið frábærlega inn í þetta hjá okkur,“ sagði knattspyrnumaðurinn Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is.
Víkingum er spáð Íslandsmeistaratitlinum í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en liðið hafnaði í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.
Gylfi Þór, sem er 34 ára gamall, gekk til liðs við Víkinga frá Val í febrúar á þessu ári en hann lék 19 leiki með Valsmönnum í Bestu deildinni á síðustu leiktíð og skoraði í þeim ellefu mörk.
„Gylfi er besti leikmaður deildarinnar,“ sagði Hansen þegar hann ræddi komu Gylfa í Fossvoginn.
„Hann þarf sinn tíma til þess að aðlagast og allt það en hann er tilbúinn að gefa sig allan í verkefnið. Hann hefur staðið sig mjög vel í fyrstu leikjunum sínum fyrir okkur. Hann hleypur mikið og fer í allar tæklingar.
Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hefur vinnuframlagið hans komið mér á óvart. Hann var í öðruvísi hlutverki hjá Val og hann á eftir að blómstra hjá okkur. Þetta er leikmaður sem á fjölda leikja í ensku úrvalsdeildinni, hann er gríðarlegur liðstyrkur fyrir okkur,“ sagði Hansen í samtali við mbl.is.
Víkingum er spáð Íslandsmeistaratitlinum í spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en Víkingar taka á móti ÍBV í Fossvoginum, mánudaginn 7. apríl, í 1. umferð Bestu deildarinnar.