Spennan er í algleymingi hjá Aroni Sigurðarsyni, fyrirliða KR í knattspyrnu, nú þegar fyrsti leikur liðsins í Bestu deildinni í ár blasir við.
„Tímabilið leggst mjög vel í okkur. Við erum mjög spenntir að byrja, hópurinn er spenntur. Það er mjög spennandi tímabil fram undan,“ sagði Aron í samtali við mbl.is.
KR hefur leik í Bestu deildinni í dag þegar liðið heimsækir KA til Akureyrar. Spurður hvernig ástatt væri fyrir leikmannahópnum hjá KR þegar stutt er í mót sagði hann:
„Það er bara gott. Eins og í flestum hópum eru einhverjir að glíma við einhver létt meiðsli en það eru engin alvarleg. Það verða langflestir klárir fyrir fyrsta leik.“
Aron sagði KR ekki vera með eiginleg markmið um að lenda í einhverju ákveðnu sæti á komandi tímabili en viðurkenndi fúslega að síðasta tímabil, þar sem KR hafnaði í áttunda sæti, hafi verið mikil vonbrigði.
„Það eru engin opinber markmið. Við erum nýr hópur og markmiðið er einhvern veginn að gera hópinn samkeppnishæfan svo hann geti barist um titla á næstu árum. Við reynum að verða betri á hverjum einasta degi, nýta hvern einasta dag og hverja einustu æfingu sem við höfum til þess að verða betra lið og betri hópur.
Ég held að það sé svona helsta markmiðið. Síðasta tímabil var í heild sinni mikil vonbrigði. En aftur þá snýst þetta bara um að elta frammistöðu, vera hugrakkir og þora að spila þennan fótbolta sem við höfum spilað á undirbúningstímabilinu þegar kemur að tímabilinu.
Þetta snýst um að verða betri hópur og betra lið. Það er ekkert markmið um topp sex, topp þrjá eða eitthvað slíkt. Við ætlum bara að bæta okkur á hverjum einasta degi og þá gerast á endanum góðir hlutir,“ sagði fyrirliðinn.
KR er spáð fjórða sæti í Bestu deildinni í ár í spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu á miðvikudag. KR heimsækir KA í 1. umferð í dag, sunnudag, kl. 16.15.