„Tímabilið leggst mjög vel í okkur fyrir vestan,“ sagði Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra í Bestu deild karla í fótbolta, í samtali við mbl.is.
Vestramönnum er spáð tólfta og neðsta sæti deildarinnar í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en liðið, sem var nýliði í deildinni á síðustu leiktíð, hafnaði í tíunda sætinu í fyrra.
„Þetta lítur mjög vel út hjá okkur og það er mikill spenna fyrir komandi tímabili. Það verður gott að byrja mótið á okkar heimavelli fyrir vestan, ólíkt því sem við lentum í á síðustu leiktíð, og það er mikil tilhlökkun í hópnum,“ sagði Elmar Atli.
Hver eru markmið Vestra fyrir tímabilið?
„Okkur langar fyrst og fremst að gera betur en á síðustu leiktíð. Það er í raun markmið númer eitt, tvö og þrjú. Við ætlum að halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á, á síðustu árum. Við erum með mikið breytt lið frá síðustu leiktíð og öðruvísi lið að mörgu leyti.
Ég er mjög spenntur að sá hvernig okkur mun reiða af í þessum fyrstu leikjum tímabilsins. Eins og ég kom inn á áðan þá lítur þetta mjög vel út hjá okkur og við erum alls ekki með lakari lið í ár en á síðustu leiktíð.“
Miklar mannabreytingar hafa orðið hjá Vestra fyrir tímabilið en hvernig hafa nýju mennirnir komið inn í Valsliðið?
„Við höfum auðvitað misst mikið af leikmönnum frá síðustu leiktíð og marga Íslendinga. Það var ekki gaman að missa Íslendingana en allir sem hafa komið til okkur eru leikmenn sem var fylgt mjög vel eftir. Við vissum upp á hár hvað við vorum að fá og þetta eru allt leikmenn sem hafa smollið inn í liðið, innan sem utan vallar,“ sagði Elmar Atli í samtali við mbl.is.
Vestra er spáð 12. og neðsta sætinu í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en Vestramenn heimsækja Val í 1. umferð Bestu deildarinnar í dag, sunnudaginn 6. apríl, klukkan 14 á Hlíðarenda.