Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í fótbolta, á eftir að ákveða sig hvort hún vilji halda áfram hjá West Ham á Englandi.
Þetta sagði hún í samtali við mbl.is en hún hefur ekki verið nægilega ánægð með spilatíma sinn á tímabilinu en hún kom til baka eftir barnseign í byrjun þess.
„Þetta er alveg búið að vera fínt. Það kemur annar þjálfari inn á meðan ég er ólétt og vissi að það yrði aðeins krefjandi. Ég get alveg verið hreinskilin að ég sé ósátt við þær mínútur sem ég hef fengið. Miðað við hvernig ég hef spilað og æft þá á ég meira skilið og hef ekki verið að fá það.
Ég mæti á allar æfingar til að vera upp á mitt besta og nýt þær mínútur sem ég fæ. Á milli landsliðsverkefna þá var svona mesta sem ég hef spilað í lengri tíma. Vonandi halda mínúturnar bara áfram að aukast þó það séu aðeins fjórir leikir eftir.“
Dagný er með möguleika um framlengingu á samningi sínum hjá West Ham og félagið er búið að virkja ákvæðið sín megin. Hún segir það vera undir sér komið að ákveða hvort hún haldi áfram en allar ákvarðanir verða að vera teknar frá fjölskylduaðstæðum.
„Ég þarf að sjá hvað verður. Ég er með einn plús einn samning og West Ham er búið að virkja hann sín megin, þannig þetta er undir mér komið.
Ég er ekki að drífa mig og ef ég færi mig úr stað þá þarf ég að vanda valið vel. Þetta er aðeins öðruvísi en þegar ég var ein. Er núna með tvo stráka og annar búinn að vera í skóla á Englandi í þrjú ár, þannig þetta er flóknara upp á það að gera,“ bætti Dagný við.