Dean Martin stýrði Skagamönnum til sigurs gegn Fram á útivelli í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í Úlfarsárdal í kvöld en Jón Þór Hauksson, aðalþjálfari ÍA, var í leikbanni.
Jón Þór var ekki á hliðarlínunni í kvöld því hann fékk rautt spjald eftir leik ÍA gegn Víkingi á síðasta tímabili.
Þrátt fyrir það sigraði ÍA Fram, 1:0, í hörkuleik í kvöld.
„Við héldum skipulagi og unnum fyrir þessum sigri. Okkur langaði að vinna, vorum mjög duglegir og það er gaman að horfa á þetta lið svona,“ sagði Dean Martin í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Skagamenn fengu ágætis liðsstyrkingu í vetur og þar á meðal var Gísli Laxdal Unnarsson en hann kom aftur til liðsins eftir tveggja ára dvöl á Hlíðarenda.
„Við erum með góðan hóp og menn þurfa að vinna sig inn í liðið. Það eru líklegast margir ósáttir að byrja ekki í dag en svona er fótbolti, við getum bara byrjað með ellefu inn á.“
ÍA lenti í fimmta sæti á síðasta tímabili en Dean Martin ætlaði ekki fram úr sér.
„Við tökum bara einn leik í einu, það er leikur í næstu viku og við undirbúum okkur vel fyrir hann. Þessi leikur er búinn og næsti er sá sem skiptir máli.“
Rúnar Már Sigurjónsson skoraði sigurmark leiksins en það kom beint úr aukaspyrnu.
„Þetta var geggjað, ég vissi að hann myndi skora,“ sagði hann um markið og hann hafði engar áhyggjur af því að hafa ekki skorað úr opnum leik.
„Nei nei, í fyrsta leiknum skiptir bara máli að vinna, skiptir engu máli hvernig þú gerir það. Við börðumst og unnum leikinn.“