„Tímabilið leggst vel í okkur. Við erum nýkomnir heim úr æfingaferð. Við vorum að þétta hópinn og æfa saman í fyrsta skipti. Það gerði mikið fyrir okkur og ég er nokkuð bjartsýnn,“ sagði Alex Freyr Hilmarsson, fyrirliði nýliða ÍBV í Bestu deildinni í knattspyrnu, í samtali við mbl.is.
ÍBV hefur leik í Bestu deildinni gegn Víkingi úr Reykjavík í Víkinni í kvöld. Alex Freyr sagði stöðuna á leikmannahópnum vera góða stuttu áður en mótið hefst.
„Þeir sem hafa verið í meiðslum eru allir að skila sér til baka. Það er nokkuð gott. Svo náðum við eins og ég segi að æfa í fyrsta skipti saman þannig að maður er búinn að læra nöfnin á öllum og er bara nokkuð sáttur við það,“ sagði hann í léttum dúr.
ÍBV hefur fengið til liðs við sig átta nýja leikmenn fyrir tímabilið og því ekki nema von að Alex Freyr hafi þurft að læra mörg ný nöfn.
Nýju leikmennirnir eru Arnór Ingi Kristinsson, Birgir Ómar Hlynsson, Þorlákur Breki Baxter, Omar Sowe, Jörgen Pettersen, Jovan Mitrovic, Milan Tomic og Mattias Edeland.
Spurður hvernig þeim hafi gengið að koma sér inn í hlutina hjá ÍBV sagði Alex Freyr:
„Bara þokkalega. Ég held að maður sé nú bara ánægður með langflesta sem hafa komið nýir inn í þetta. Þeir virðast ánægðir með að vera hérna og við sem vorum fyrir erum ánægðir að hafa þá.“
Hver eru markmið ÍBV fyrir tímabilið?
„Það er góð spurning. Mig langar að segja að það sem við verðum að gera er að þróa okkar leikstíl frekar frá því í fyrra. Við verðum að reyna að ná meiri stjórn á leikjum bæði sóknar- og varnarlega.
Hvar við endum í töflunni, ég veit ekki hvort við eigum að fara að tala um einhver svoleiðis markmið, en það er bara að byggja á því að þróa okkar leikstíl og búa til skrímsli.
Þá væri það gott að koma ÍBV á þann stað sem það á að vera á. Ég myndi segja að það væri gott markmið að stefna á,“ sagði fyrirliðinn að lokum í samtali við mbl.is.
ÍBV er spáð 11. sæti í Bestu deildinni í ár í spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu á miðvikudag. ÍBV heimsækir Víking í Fossvoginn í 1. umferð í kvöld kl. 18.