„Tímabilið leggst bara nokkuð vel í okkur í Garðabænum,“ sagði Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is.
Stjörnunni er spáð fimmta sæti í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en liðið hafnaði í fjórða sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.
„Við erum búnir að æfa mjög vel í allan vetur og komum inn í tímabilið í mjög góðu standi. Við erum ferskir líka og eftirvæntingin er mikil. Heiðar Ægisson sleit auðvitað krossband í æfingaferðinni okkar en að honum undanskildum eru allir leikmenn liðsins heilir heilsu og klárir í slaginn,“ sagði Guðmundur.
Hver eru markmið Stjörnunnar fyrir tímabilið?
„Við erum með öflugan leikmannahóp og við stefnum hátt. Við erum ekki að horfa mjög langt fram í tímann og við erum meira að horfa á einn leik í einu. Hjá okkur snýst þetta meira um skammtímamarkmiðin og við viljum fyrst og fremst bæta okkur, leik frá leik. Við erum ekki með eitthvað ákveðið sæti í huga en við stefnum auðvitað á það að standa okkur vel.“
Garðbæingar hafa misst reynslumikla leikmenn á borð við Daníel Laxdal, Hilmar Árna Halldórsson og Þórarinn Inga Valdimarsson en á móti hafa reynslumiklir leikmenn komið inn í staðinn.
„Það hafa orðið einhverjar mannabreytingar hjá okkur og leikmennirnir sem hafa komið fyrir tímabilið eru að mörgu leyti ólíkir þeim sem hafa verið að fara frá okkur. Þetta eru allt öflugir leikmenn og samkeppnin er mikil um allar stöður, sem er mjög mikilvægt.
Ólíkt síðustu árum höfum við verið að fá til okkar reynslumikla leikmenn, meðal annars vegna þess að við höfum misst reynslubolta frá síðustu leiktíð. Blandan í leikmannahópnum er mjög góð í ár og vonandi verður stöðugleikinn meiri en undanfarin ár með tilkomu reynslu mikilla leikmanna,“ bætti Guðmundur við í samtali við mbl.is.
Stjörnunni er spáð 5. sæti í árlegri spá íþróttadeildar mbl.is og Morgunblaðsins en Garðbæingar taka á móti FH í 1. umferð Bestu deildarinnar í kvöld, mánudagskvöldið 7. apríl, klukkan 19.15 í Garðabænum.