FH hefur verið í vandræðum með miðverði á undirbúningstímabilinu því Grétar Snær Gunnarsson og Ísak Óli Ólafsson eru að glíma við meiðsli. Þá er Ólafur Guðmundsson farinn í atvinnumennsku.
„Það þarf að finna leið til að leysa það. Ísak verður frá í einhvern tíma og Böðvar hefur leyst þessa stöðu í síðustu leikjum og gert það vel. Ég á von á að hann byrji í miðverðinum þegar tímabilið byrjar.
Við höfum prófað ýmislegt í þessari stöðu og m.a. mig en vonandi þarf ég ekki að spila þessa stöðu mikið meira. Við finnum út úr þessu. Við erum með marga frambærilega leikmenn sem geta verið fjölhæfir. Við förum ekki með áhyggjur af þessu inn í tímabilið, þá verður tímabilið bara leiðinlegt,“ sagði Björn Daníel Sverrisson fyrirliði FH við mbl.is.
Frá því viðtalið var tekið hefur FH bætt við sig hinum sterka Ahmad Faqa, sem var einn besti varnarmaður Bestu deildarinnar árið 2023 er hann lék með HK.
FH hafnaði í 7. sæti í spá Morgunblaðsins sem birt var í miðvikudagsblaðinu. FH mætir grönnum sínum í Stjörnunni í Garðabænum í 1. umferðinni í kvöld klukkan 19.15.