„Við vissum að við gætum unnið leikinn og með smá heppni í lokin hefðum við stolið þessu en við verðum bara að taka jafnteflið á okkur,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eftir að hafa skorað þrennu í 3:3 jafntefli gegn Sviss í Þjóðadeild kvenna í knattspyrnu á Þróttarvellinum í Laugardal.
„Þetta var skelfilegur fyrri hálfleikur og svo fengum við högg á okkur strax í seinni hálfleik en við sýndum gríðarlegan karakter að koma til baka og spurningin var bara hvenær við myndum jafna leikinn,“ sagði Karólína í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Íslenska liðið lenti snemma 2:0 undir eftir daprar 35 mínútur í upphafi leiks og var lengi í gang.
„Aukaspyrnan kom okkur aðeins í gang og svo skiptum við um pressu í seinni sem virkaði mun betur. Við fórum beint á hafsentana þeirra og vorum enn þá þéttar á miðjunni og það gekk bara mun betur.“
Á fyrstu sekúndum seinni hálfleiksins fékk Ísland á sig sjálfsmark eftir langa sendingu til baka.
„Ég hef aldrei lent í öðru eins, ég skildi ekki hvað var í gangi en svona er boltinn og þetta var hrikalega svekkjandi en við vissum að við myndum jafna. Ég skil ekki hvað gerðist í markinu en þetta gerðist og við komum til baka sem var sterkt.“
Íslenska liðið var manni fleiri í 20 mínútur en Géraldine Reuteler var rekinn af velli. Íslenska liðið náði ekki að nýta sér yfirtöluna til þess að stela sigrinum.
„Það er mjög svekkjandi að ná ekki að skora, við eigum að ná allavega einu marki manni fleiri en þetta var upp og niður í dag og við verðum bara að taka stigið.“
Karólína Lea skoraði öll mörk íslenska liðsins en jöfnunarmarkið var uppáhalds markið hennar í kvöld.
„Skallamarkið! Ég hef aldrei skorað skallamark, held ég, með landsliðinu svo það var hrikalega gaman.“