„Ég veit að ég er góð í fótbolta“

Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir í leiknum í kvöld.
Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við byrjuðum að mörgu leyti leik­inn 1:0 und­ir og erum að elta all­an leik­inn, það er ógeðslega erfitt,“ sagði Dagný Brynj­ars­dótt­ir, landsliðskona í fót­bolta, eft­ir 3:3-jafn­tefli gegn Sviss í Þjóðadeild Evr­ópu í kvöld.

Þor­steinn Hall­dórs­son gerði tvær breyt­ing­ar á liðinu eft­ir aðeins 35 mín­út­ur en Dagný og Áslaug Munda Gunn­laugs­dótt­ir komu inn á. 

„Ég veit að ég er góð í fót­bolta og þekki mína styrk­leika og ég ákvað að halda mér við þá. Ég var í svipaðri stöðu með West Ham rétt áður en ég kom í verk­efnið. Kom þá líka inn á á 35. mín­útu svo ég er kannski van­ari þess­ari stöðu en marg­ir aðrir,“ sagði Dagný í viðtali við mbl.is eft­ir leik­inn.

„Ég og Áslaug Munda feng­um skila­boð um að laga ákveðin atriði og mér fannst við báðar gera það vel þegar við kom­um inn.” 

 Íslenska liðið var 2:0 und­ir þegar aðeins 17 mín­út­ur voru bún­ar af leikn­um

Var erfitt að horfa á fyrsta hálf­tíma leiks­ins?

„Já, það var. Við vor­um ekki að fara eft­ir leikplani. Við vor­um langt frá mönn­um, vor­um ekki að halda skipu­lagi, press­an var að klikka, við vor­um ekki að tengja send­ing­ar og það vantaði yf­ir­veg­un.

Það sýn­ir karakt­er að koma til baka en eft­ir að þær fá rautt spjald þá hefði verið rosa­lega sætt að taka sig­ur­inn í lok­in, sér­stak­lega manni fleiri, og við feng­um færi í það en það féll ekki með okk­ur í dag.“

Íslenska liðið minnkaði mun­inn í 2:1 á síðustu mín­útu fyrri hálfleiks en Karólína Lea Vil­hjálms­dótt­ir skoraði beint úr auka­spyrnu. 

„Það var rosa­lega sterkt. Þetta var frá­bær auka­spyrna hjá Karólínu og mik­il­vægt að fara inn í seinni hálfleik 2:1. Þá erum við komn­ar aft­ur inn í leik­inn en eins og við byrjuðum fyrri hálfleik­inn þá fáum við þetta mark á okk­ur í seinni og þetta var skrítið mark.

Þetta var eng­um að kenna, ég veit ekki hvort bolt­inn skoppaði skringi­lega á gras­inu eða hvort að Munda og Cecilia (Rán Rún­ars­dótt­ir) voru kannski ekki al­veg að tengja en fót­bolta­leik­ur er leik­ur mistaka og þetta voru ein mis­tök af okk­ar hálfu en við ger­um vel að koma alltaf til baka. Við erum að elta frá fyrstu mín­útu og þegar við kom­um okk­ur í 3:3 þá hefði verið ótrú­lega sætt að ná inn fjórða mark­inu.“ 

Ísland er í þriðja sæti riðils­ins með þrjú stg, einu stigi á und­an Sviss sem er á botn­in­um og einu á eft­ir Nor­egi í öðru sæti.

„Staðan er svosem eins í riðlin­um. Við hefðum viljað þrjú stig í dag en erum á sama stað í riðlin­um og þurf­um að taka sig­ur úti á móti Nor­egi eða Frökk­um hérna heima, von­andi bara bæði og þá kom­um við okk­ur í ansi góða stöðu.“

Dagný var val­in í landsliðið á ný í fe­brú­ar eft­ir tveggja ára fjar­veru.

„Mér finnst ég góð í fót­bolta og eiga er­indi í þenn­an hóp en svo verður Steini bara að velja hvað hann vill.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka