„Við byrjuðum að mörgu leyti leikinn 1:0 undir og erum að elta allan leikinn, það er ógeðslega erfitt,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í fótbolta, eftir 3:3-jafntefli gegn Sviss í Þjóðadeild Evrópu í kvöld.
Þorsteinn Halldórsson gerði tvær breytingar á liðinu eftir aðeins 35 mínútur en Dagný og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir komu inn á.
„Ég veit að ég er góð í fótbolta og þekki mína styrkleika og ég ákvað að halda mér við þá. Ég var í svipaðri stöðu með West Ham rétt áður en ég kom í verkefnið. Kom þá líka inn á á 35. mínútu svo ég er kannski vanari þessari stöðu en margir aðrir,“ sagði Dagný í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
„Ég og Áslaug Munda fengum skilaboð um að laga ákveðin atriði og mér fannst við báðar gera það vel þegar við komum inn.”
Íslenska liðið var 2:0 undir þegar aðeins 17 mínútur voru búnar af leiknum
Var erfitt að horfa á fyrsta hálftíma leiksins?
„Já, það var. Við vorum ekki að fara eftir leikplani. Við vorum langt frá mönnum, vorum ekki að halda skipulagi, pressan var að klikka, við vorum ekki að tengja sendingar og það vantaði yfirvegun.
Það sýnir karakter að koma til baka en eftir að þær fá rautt spjald þá hefði verið rosalega sætt að taka sigurinn í lokin, sérstaklega manni fleiri, og við fengum færi í það en það féll ekki með okkur í dag.“
Íslenska liðið minnkaði muninn í 2:1 á síðustu mínútu fyrri hálfleiks en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði beint úr aukaspyrnu.
„Það var rosalega sterkt. Þetta var frábær aukaspyrna hjá Karólínu og mikilvægt að fara inn í seinni hálfleik 2:1. Þá erum við komnar aftur inn í leikinn en eins og við byrjuðum fyrri hálfleikinn þá fáum við þetta mark á okkur í seinni og þetta var skrítið mark.
Þetta var engum að kenna, ég veit ekki hvort boltinn skoppaði skringilega á grasinu eða hvort að Munda og Cecilia (Rán Rúnarsdóttir) voru kannski ekki alveg að tengja en fótboltaleikur er leikur mistaka og þetta voru ein mistök af okkar hálfu en við gerum vel að koma alltaf til baka. Við erum að elta frá fyrstu mínútu og þegar við komum okkur í 3:3 þá hefði verið ótrúlega sætt að ná inn fjórða markinu.“
Ísland er í þriðja sæti riðilsins með þrjú stg, einu stigi á undan Sviss sem er á botninum og einu á eftir Noregi í öðru sæti.
„Staðan er svosem eins í riðlinum. Við hefðum viljað þrjú stig í dag en erum á sama stað í riðlinum og þurfum að taka sigur úti á móti Noregi eða Frökkum hérna heima, vonandi bara bæði og þá komum við okkur í ansi góða stöðu.“
Dagný var valin í landsliðið á ný í febrúar eftir tveggja ára fjarveru.
„Mér finnst ég góð í fótbolta og eiga erindi í þennan hóp en svo verður Steini bara að velja hvað hann vill.“