„Tilfinningarnar eru blendnar,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, eftir jafntefli við Sviss, 3:3, í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.
Ísland jafnaði í 3:3 eftir að Sviss komst í 3:1 í upphafi seinni hálfleiks. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði öll mörk Íslands. Ísland lék svo síðustu rúmu 20 mínúturnar manni fleiri eftir að Géraldine Reuteler fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.
„Mér fannst við alveg líkleg til að skora í lokin. Við vorum að koma okkur í fínar stöður til að fá mjög góð færi. Það er jákvætt að koma til baka eftir að hafa verið 3:1 undir eftir 46 mínútur. Við sýndum karakter að láta þetta ekki hafa of mikil áhrif á okkur,“ sagði Þorsteinn.
Sviss komst í 2:0 eftir aðeins 17 mínútur og íslenska liðið var í miklum vandræðum. Þorsteinn gerði svo tvöfalda breytingu á 36. mínútu og við það batnaði leikur íslenska liðsins töluvert.
„Það voru vandræði í pressu, vandræði í spili og það var ekki kveikt á leikmönnum. Ég þarf líka að skoða það hjá mér. Hvað þarf ég að laga? Ég þarf að skoða mitt og sjá hvað ég get gert betur.
Ég hefði getað tekið fleiri leikmenn af velli en þetta er ákvörðun sem ég tók. Við vorum í vandræðum vinstra megin og inni á miðsvæðinu. Þetta er þungt fyrir leikmenn sem lenda í þessu og ekki vani að taka leikmenn af velli í fyrri hálfleik en maður þarf að taka ákvarðanir stundum og þetta var ein af þeim erfiðustu.“
Ísland fékk tvö stig í heimaleikjum gegn Noregi og Sviss í þessum glugga. Þorsteinn er temmilega sáttur með uppskeruna.
„Ég er sáttur með fyrri leikinn og seinni hálfleikinn í þessum leik. Nú þarf ég að meta sjálfan mig og hvað ég get gert betur. Ég tek það á mig að liðið var ekki nógu gott í fyrri hálfleik.“
Ísland hefur nú spilað átta leiki í röð án sigurs. Þorsteinn er að sjálfsögðu ekki sáttur við þá staðreynd.
„Auðvitað langar mann í sigur. Við erum í hörkuriðli og við spiluðum æfingaleiki á móti hörkuþjóðum. Við vissum að við gætum lent í smá vandræðum. Við hefðum getað unnið fyrri leikinn og þennan líka,“ sagði hann.