Ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið

Þorsteinn Halldórsson fylgist með í dag.
Þorsteinn Halldórsson fylgist með í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Til­finn­ing­arn­ar eru blendn­ar,“ sagði Þor­steinn Hall­dórs­son, landsliðsþjálf­ari kvenna í fót­bolta, eft­ir jafn­tefli við Sviss, 3:3, í Þjóðadeild­inni á Laug­ar­dals­velli í kvöld.

Ísland jafnaði í 3:3 eft­ir að Sviss komst í 3:1 í upp­hafi seinni hálfleiks. Karólína Lea Vil­hjálms­dótt­ir skoraði öll mörk Íslands. Ísland lék svo síðustu rúmu 20 mín­út­urn­ar manni fleiri eft­ir að Gér­aldine Reu­teler fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

„Mér fannst við al­veg lík­leg til að skora í lok­in. Við vor­um að koma okk­ur í fín­ar stöður til að fá mjög góð færi. Það er já­kvætt að koma til baka eft­ir að hafa verið 3:1 und­ir eft­ir 46 mín­út­ur. Við sýnd­um karakt­er að láta þetta ekki hafa of mik­il áhrif á okk­ur,“ sagði Þor­steinn.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir kom inn í fyrri hálfleik.
Áslaug Munda Gunn­laugs­dótt­ir kom inn í fyrri hálfleik. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Sviss komst í 2:0 eft­ir aðeins 17 mín­út­ur og ís­lenska liðið var í mikl­um vand­ræðum. Þor­steinn gerði svo tvö­falda breyt­ingu á 36. mín­útu og við það batnaði leik­ur ís­lenska liðsins tölu­vert.

„Það voru vand­ræði í pressu, vand­ræði í spili og það var ekki kveikt á leik­mönn­um. Ég þarf líka að skoða það hjá mér. Hvað þarf ég að laga? Ég þarf að skoða mitt og sjá hvað ég get gert bet­ur.

Íslenska liðið fagnar marki í kvöld.
Íslenska liðið fagn­ar marki í kvöld. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Ég hefði getað tekið fleiri leik­menn af velli en þetta er ákvörðun sem ég tók. Við vor­um í vand­ræðum vinstra meg­in og inni á miðsvæðinu. Þetta er þungt fyr­ir leik­menn sem lenda í þessu og ekki vani að taka leik­menn af velli í fyrri hálfleik en maður þarf að taka ákv­arðanir stund­um og þetta var ein af þeim erfiðustu.“

Ísland fékk tvö stig í heima­leikj­um gegn Nor­egi og Sviss í þess­um glugga. Þor­steinn er temmi­lega sátt­ur með upp­sker­una.

„Ég er sátt­ur með fyrri leik­inn og seinni hálfleik­inn í þess­um leik. Nú þarf ég að meta sjálf­an mig og hvað ég get gert bet­ur. Ég tek það á mig að liðið var ekki nógu gott í fyrri hálfleik.“

Ísland hef­ur nú spilað átta leiki í röð án sig­urs. Þor­steinn er að sjálf­sögðu ekki sátt­ur við þá staðreynd.

„Auðvitað lang­ar mann í sig­ur. Við erum í hörk­uriðli og við spiluðum æf­inga­leiki á móti hörkuþjóðum. Við viss­um að við gæt­um lent í smá vand­ræðum. Við hefðum getað unnið fyrri leik­inn og þenn­an líka,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert