Ísland og Sviss skildu jöfn, 3:3, í ótrúlegum leik í 2. riðli A-deildarinnar í Þjóðadeild kvenna í fótbolta á Þróttarvelli í dag. Ísland er með þrjú stig eftir fjóra leiki og á enn eftir að fagna fyrsta sigrinum í riðlinum.
Síðustu tveir leikir Íslands í riðlinum verða á móti Noregi á útivelli 30. maí og Frakklandi á heimavelli 3. júní.
Leikurinn byrjaði eins illa og hægt var fyrir Ísland því Géraldine Reuteler skoraði eftir aðeins tveggja mínútna leik. Hún slapp þá inn fyrir vörn Íslands og hafði nægan tíma til að leggja boltann í fjær.
Smilla Vallotto tvöfaldaði forskot svissneska liðsins á 17. mínútu er hún kláraði vel í netið eftir sendingu frá Reuteler frá hægri.
Íslenska liðinu gekk mjög illa að skapa sér opin færi og Sviss var með góð tök á leiknum. Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson brást við með tvöfaldri skiptingu á 36. mínútu.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir komu þá inn á fyrir Sædísi Rún Heiðarsdóttur og Berglindi Rós Ágústsdóttur.
Við það batnaði leikur Íslands töluvert og það skilaði sér í marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Alexandra Jóhannsdóttir náði í aukaspyrnu rétt utan teigs og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði úr spyrnunni. Átti Elvira Herzog í marki Sviss að gera betur því hún missti boltann klaufalega undir sig.
Flautaði danski dómarinn Frida Klarlund til hálfleiks nánast um leið og boltinn fór í netið og voru hálfleikstölur því 2:1, Sviss í vil.
Seinni hálfleikur byrjaði enn verr en sá fyrri því Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir skoraði sjálfsmark eftir tæpar 20 sekúndur. Hún ætlaði þá að gefa til baka á Cecilíu í markinu, 40-45 metrum frá marki en markvörðurinn missti af boltanum og hann fór í hornið.
Íslenska liðið svaraði vel því tæpum fimm mínútum síðar skoraði Karólína Lea sitt annað mark og annað mark Íslands. Markið kom eftir að Sveindís vann boltann nálægt vítateig Sviss og lagði boltann út á Karólínu sem kláraði með föstu skoti.
Karólína var ekki hætt því hún fullkomnaði þrennuna á 62. mínútu er hún jafnaði í 3:3 með skalla af stuttu færi eftir að Ingibjörg Sigurðardóttir skallaði boltann áfram eftir langt innkast frá Sveindísi.
Það dró til tíðinda á 69. mínútu er Reuteler fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir leikaraskap en hún reyndi að ná í víti með því að handa sér niður innan teigs.
Íslenska liðið sótti mikið eftir markið og skapaði sér nokkuð af færum. Herzog stóð hins vegar vaktina vel í markinu og varði nokkrum sinnum vel og skiptu liðin því með sér stigunum.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir gerði líka vel í uppbótartíma leiksins þegar hún varði vel hættulega aukaspyrnu frá Ramonu Bachmann.