„Þetta var furðuleg byrjun. Við lendum 2:0 undir, tökum svo liðsfund og mér finnst við svo stíga upp eftir það,“ sagði Cecilia Rán Rúnarsdóttir, markmaður íslenska landsliðsins, eftir 3:3-jafntefli gegn Sviss í Þjóðadeild kvenna í knattspyrnu í kvöld.
„Við vorum óheppnar í þriðja markinu en það þarf sterkan haus í að halda áfram og mér fannst við gera það og gera það vel. Við áttum skilið fleiri stig úr þessum leik,“ sagði Cecilia í viðtali við mbl.is eftir leikinn
Íslenska liðið náði að minnka muninn í 2:1 á lokamínútu fyrri hálfleiks en strax í upphafi seinni hálfleiks skoraði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sjálfsmark þegar hún sendi langa sendingu til baka á Ceciliu.
„Þetta var bara misskilningur um staðsetningu og mistök. Mistök gerast í fótbolta og það er ekki hægt að flýja þau.
Það gerðist og það er ekki hægt að breyta því. Maður verður að hugsa fram á við og halda áfram og mér fannst við og liðið gera það,“ sagði Cecilia um markið.
Hvað fer í gegnum hausinn á þér eftir þriðja markið?
„Ég hafði alltaf trú á að við myndum jafna og þegar við jöfnuðum þá höfðum við trú á að við myndum vinna leikinn. Í fótbolta verður maður að vera í núinu. Maður má ekki hugsa of mikið um fortíðina né framtíðina.
Íslenska liðið var manni fleiri í 20 mínútur undir lok leiks en náði ekki að skora á þeim tíma.
„Við fengum færi til þess og þrjú mörk eiga að vera nóg til þess að vinna fótboltaleiki. Eftir að við jöfnuðum þá fengum við færi til þess að vinna leikinn en það datt ekki í dag.“