Ásgeir Sigurgeirsson, sóknarmaður bikarmeistara KA, var besti leikmaðurinn í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.
Ásgeir lék mjög vel, skoraði fyrra mark Akureyrarliðsins og lagði upp það seinna þegar það gerði jafntefli, 2:2, við KR í fjörugum leik á KA-vellinum á sunnudaginn. Hann fékk tvö M fyrir frammistöðu sína í leiknum.
Ásgeir er 28 ára gamall Húsvíkingur sem leikur nú sitt tíunda keppnistímabil með KA. Hann byrjaði að spila með meistaraflokki Völsungs aðeins 14 ára gamall árið 2011 og lék með liðinu í þrjú ár, tvö í 2. deild og svo eitt ár í 1. deild, en var síðan í röðum norska félagsins Stabæk í tvö ár, 2014 og 2015, og spilaði þar með unglingaliði.
Nánar í Morgunblaðinu í dag og þar er birt fyrsta úrvalslið ársins 2025 í Bestu deild karla.