Lið Breiðabliks er afar líklegt til að verja Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu á komandi keppnistímabili en keppni í Bestu deild kvenna 2025 hefst á þriðjudaginn kemur.
Þetta er niðurstaðan í árlegri spá Morgunblaðsins og mbl.is þar sem starfsfólk íþróttadeildar og aðrir knattspyrnusérfræðingar á ritstjórninni, alls 20 manns, greiddu atkvæði.
Allir nema þrír töldu að Breiðablik yrði Íslandsmeistari árið 2025. Þeir spáðu Val sigri en tveir til viðbótar spáðu Valsliðinu þriðja sætinu, á eftir Þór/KA í öðru tilfellinu og á eftir Víkingi í hinu.
Þróttur úr Reykjavík varð hins vegar í þriðja sætinu í spánni, einu stigi fyrir ofan Þór/KA en samkvæmt sérfræðingunum kemur það í hlut nýliðanna tveggja í Fram og Austfjarðaliðinu FHL að falla á ný úr deildinni, Fram þó eftir harða baráttu við Tindastól.
Bjartsýni fyrir hönd Breiðabliks er á rökum reist en Kópavogsliðið kemur líklega enn sterkara til leiks en í fyrra þegar það hafði betur gegn Val eftir hreinan úrslitaleik liðanna á Hlíðarenda í lokaumferðinni.
Varnarmaðurinn Heiðdís Lillýjardóttir og framherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir snúa aftur til Breiðabliks og þar bætist mikil reynsla í hópinn. Þær koma í staðinn fyrir fyrirliðann Ástu Eir Árnadóttur sem lagði skóna á hilluna og Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur sem fór til Anderlecht í Belgíu. Hin bandaríska Katherine Devine kemur í markið í stað Telmu Ívarsdóttur sem fór til Rangers í Skotlandi.
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um liðin tíu í Bestu deild kvenna og farið vel yfir spána sem er birt í blaðinu. Einnig er hægt að lesa blaðið í nýja M-appinu, Mogganum.