Elín Metta Jensen, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu og ein markahæsta knattspyrnukona landsins á seinni árum, er komin til liðs við Vals á nýjan leik.
Elín tók fram skóna á ný eftir hálfs árs hlé með Þrótti tímabilið 2023 en var síðan í barneignafríi á síðasta ári. Hún hóf æfingar með Val fyrir nokkrum vikum og hefur nú fengið leikheimild með Hlíðarendaliðinu á ný. Hún gæti því tekið þátt í leiknum árlega í Meistarakeppni KSÍ þegar Breiðablik og Valur mætast á Kópavogsvelli annað kvöld.
Elín Metta er níunda markahæsta knattspyrnukonan í sögu efstu deildar með 134 mörk í 189 leikjum. Þar af eru 132 mörk fyrir Val en hún er næstleikjahæst í sögu félagsins á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur.
Hún skoraði 18 mörk fyrir Val í deildinni árið 2012, þegar hún deildi markadrottningartitlinum með Söndru Maríu Jessen, og 17 mörk árið 2013 þegar hún varð næstmarkahæst. Þá var hún með 16 mörk bæði 2017 og 2019 og varð næstmarkahæst í fyrra skiptið, og deildi titlinum með Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og Hlín Eiríksdóttur árið 2019.
Þá hefur Elín Metta, sem er þrítug, skorað 16 mörk í 62 landsleikjum fyrir Íslands hönd. Hún kom við sögu með landsliðinu bæði á EM 2013 og EM 2017.