Selfoss hafði betur gegn Völsungi, 1:0, í úrslitaleik deildabikars kvenna í C-deild í knattspyrnu á Selfossi í gær.
Mæðgurnar Harpa Ásgeirsdóttir og Ísabella Anna Kjartansdóttir spila með Völsung en Harpa kom inn á á 43. mínútu leiksins og á 68. mínútu kom dóttir hennar inn á.
Ísabella er fædd árið 2011 og uppalin í Völsungi og spilaði þrjá leiki fyrir liðið, sem er í 2. deild, á síðasta tímabili.
Harpa spilaði einnig fyrstu meistaraflokksleiki sína með Þór/KA/KS en það var árið 2003 áður en hún fór í Völsung. Hún hefur einnig spilað með KR og Aftureldingu og hefur spilað 125 leiki í næstefstu deild og 11 í efstu deild.