„Við ætlum að stimpla okkur inn sem félag í efstu deild,“ sagði Óskar Smári Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Fram, á kynningarfundi Bestu deildar kvenna í Kópavogi á föstudaginn var.
Fram leikur í fyrsta sinn í efstu deild í 37 ár og er mikil eftirvænting fyrir því í Úlfarsárdal.
„Stemningin er frábær og það er gríðarlega mikil spenna og eftirvænting í hópnum. Allir eru spenntir að byrja mótið,“ sagði Óskar Smári.
Þróttur úr Reykjavík er fyrsti mótherji Framara á þriðjudaginn kemur. Þrótturum er spáð góðu gengi á tímabilinu. Fyrsti heimaleikur Framliðsins verður síðan gegn FH. Í þriðju umferðinni bíður síðan krefjandi verkefni en þá heimsækja Framkonur Íslandsmeistara Breiðabliks.
„Þetta leggst mjög vel í mig. Þróttarliðið er vel mannað og búið að gera vel í vetur. Þær líta mjög vel út. Við vitum að það verður erfiður og krefjandi leikur en á sama tíma ætlum við okkur þrjú stig úr þeim leik og nálgumst hann þannig.
Þetta verður erfiður leikur eins og allir leikir í deildinni. Að byrja fyrstu tvo útileikina gegn Þrótti og Breiðabliki er gott. Við bíðum mjög spennt eftir að koma í Laugardalinn á þriðjudaginn.“
Frömurum var spáð níunda sætinu í úrvalsdeildinni í ár af leikmönnum deildarinnar sem myndi þýða fall í næstefstu deild á ný. Þó var einnig spáð að Framliðið kæmi mest á óvart.
„Það vita ekki allir allt um okkur. Við erum með nýja leikmenn í liðinu sem hafa ekki spilað í efstu deild áður. Þeir leikmenn sem hafa spilað í efstu deild og eru hjá okkur eru öflugar stærðir.
Við getum komið á óvart og fallið en líka ekki komið á óvart og ekki fallið. Okkur er búið að vera spáð áttunda, níunda og tíunda sæti á þremur miðlum og þetta eru þrjú sæti sem við ætlum okkur ekki að vera í. Það verður gaman þegar verður talið úr pokanum í lok tímabils og við getum afsannað allar spár.
Við ætlum að halda í okkar gildi, númer eitt, tvö og þrjú. Við ætlum að halda áfram að þroskast og þróast, stækka og verða betri í öllum hlutum leiksins. Við ætlum að læra af þeim mistökum sem við gerum og vera besta útgáfan af sjálfum okkar.
Við ætlum að fara í hvern einasta leik til að vinna hann. Við ætlum að stimpla okkur inn sem efstudeildarfélag.“
Stemningin hefur verið góð hjá kvennaliði Fram undanfarin ár. Óskar Smári segir að það verði að halda áfram.
„Fyrst og fremst þurfum við að halda áfram að vinna þá frábæru vinnu sem við höfum unnið á samfélagsmiðlum. Við þurfum að halda áfram að láta samfélagið taka þátt í þeirri uppbygginu sem er í gangi í félaginu.
Það hefur verið gríðarleg stemning hjá kvennaliðinu undanfarin ár, einfaldlega því það hefur gengið vel. Þá hefur mikið verið lagt í liðið og umgjörðin í kringum algjörlega frábær hjá félaginu. Við megum ekki sofa á verðinum heldur halda áfram að bæta okkur í öllum hlutum leiksins,“ bætti Óskar Smári við í samtali við mbl.is.