Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals í knattspyrnu, viðurkennir að hafa viljað spila meira á síðasta tímabili en hún var þá í aukahlutverki.
Elísa sneri aftur stuttu eftir barnsburð á síðasta tímabili en Bandaríkjakonan Hailey Whitaker var á undan henni í goggunarröðinni allt tímabilið.
„Já, að sjálfsögðu hefði ég viljað spila meira en ég virði líka þjálfarateymið að hafa kosið aðra leikmenn sem voru að spila. En ég er ótrúlega sátt við mitt, ég gerði allt sem ég gat og svo var það bara þjálfaranna að meta það.
Staðan var sú að ég fékk lítinn spiltíma en þá reyndi ég bara að gefa af mér á öðrum stöðum. Þá er helst að nefna utan vallar. Ég er líka ótrúlega stolt af sjálfri mér að hafa tekist á við aðstæður sem voru alveg krefjandi, að vera meira á bekknum.
Ég held að það hafi líka gefið mér aukna vídd sem leiðtogi, að setja mig í spor annarra. Að sitja á bekknum en þurfa samt að vera góður liðsfélagi og gefa af mér á annan hátt. Það er svolítið það sem ég tek með mér eftir síðasta tímabil,“ sagði Elísa í samtali við mbl.is.
Í ár virðist öldin önnur hjá henni. Elísa hefur spilað alla leiki Vals á undirbúningstímabilinu og endurheimti sæti sitt í landsliðinu á dögunum. Spurð hvort hún væri sérstaklega ákveðin í að sýna hvað í sér býr eftir vonbrigði síðasta árs sagði Elísa:
„Ég veit hvað ég get sem fótboltakona. Mér finnst ég ekki þurfa að sýna eða sanna neitt fyrir neinum nema bara sjálfri mér. Ég kem mjög vel mótiveruð inn í tímabilið.
Ég hlakka til að spila fótbolta og gera vel fyrir mig og mitt lið. Það er svona minn fókus núna. Ég þarf ekki að sanna neitt fyrir neinum, bara að gera þetta fyrir sjálfa mig og Val.“
Valur hafnar í 2. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Valur fær FH í heimsókn á Hlíðarenda í fyrstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 18 á miðvikudag.