Daníel Hafsteinsson, leikmaður Víkings, átti skínandi fínan leik í sigri á uppeldisfélagi sínu KA, 4:0, í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.
„Ég er mjög ánægður. Ég var mjög stressaður fyrir þessum leik, þetta var skrítin tilfinning því ég þekki þessa stráka alla. Ég er bara mjög ánægður með sigurinn.
Þetta var klárlega öðruvísi en aðrir leikir. Ég veit ekki alveg hvað það var, það er eiginlega ekki hægt að útskýra það. Maður veit að þeir vita nákvæmlega hvað hreyfingu ég er að fara að gera og öfugt. Þetta var skrítið en mjög gaman samt, mig langaði rosalega mikið að vinna þennan leik þó að þetta sé uppeldisfélagið.“
Víkingar byrjuðu leikinn af krafti og var staðan orðin 3:0 eftir tæplega 25 mínútur.
„Það er auðvitað bara draumabyrjun þegar maður er 2:0-yfir eftir korter. Ef maður gæti gert þetta í öllum leikjum væri það auðvitað bara frábært.“
Daníel hefur farið virkilega vel af stað í Víkingstreyjunni og segist mjög ánægður í Víkinni.
„Klárlega. Ég er mjög ánægður með þessi skipti, gaman að vera partur af þessum stóra hópi. Ég er búinn að fá að spila slatta sem eru bara forréttindi svo ég er bara sáttur, innan vallar sem utan.“
Víkingar voru án margra mikilvægra leikmanna í kvöld sem sýnir hversu sterk breiddin er í liðinu.
„Algjörlega. Við erum með mjög marga frábæra leikmenn utan hóps en náum samt að stilla upp mjög sterku liði. Þetta er alvöru hópur og gott að geta nýtt hann þegar menn eru meiddir.“