Agla María Albertsdóttir tók við fyrirliðabandinu hjá fótboltaliði Breiðabliks eftir að Ásta Eir Árnadóttir lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.
„Það breytir ekki hvernig ég nálgast hlutina en það eru fleiri verkefni sem ég tek að mér. Ég er sama týpa og ég var. Það er samt mikill heiður að vera fyrirliði hjá uppeldisfélaginu,“ sagði Agla María við mbl.is um fyrirliðabandið.
En hvað gerir Öglu Maríu að góðum fyrirliða?
„Ég leiði með góðu fordæmi og ég vil alltaf vinna. Ég er til í að gera allt sem þarf til að aðrir leikmenn blómstri í kringum mig,“ sagði hún.
Breiðabliki er spáð efsta sæti af Morgunblaðinu en spáin var birt í fimmtudagsblaðinu. Liðið byrjar tímabilið á grannaslag við Stjörnuna á heimavelli á þriðjudagskvöld klukkan 18.