Fram vann Breiðablik, 4:2, eftir magnaða endurkomu í 2. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Framvellinum í Úlfarsárdal í kvöld.
Staðan í hálfleik var 2:0 fyrir Breiðabliki en á ellefu mínútna kafla í seinni hálfleik skoruðu heimamenn fjögur mörk og tryggðu sér sætan sigur.
Fram er með þrjú stig í öðru sæti deildarinnar en Breiðablik er með jafnmörg í sjötta.
Það var mikill vindur í Úlfarsárdal í kvöld og hafði það töluverð áhrif á leikinn. Leikmönnum Breiðabliks gekk þó betur að spila boltanum en þeir spiluðu með vindi í fyrri hálfleik.
Eftir frekar rólega byrjun voru það gestirnir sem komust yfir en á 17. mínútu leiksins voru Arnór Gauti Jónsson og Fred í mikilli baráttu á miðjum vellinum sem endaði þannig að Fred dettur og boltinn hrekkur til Antons Loga Lúðvíkssonar og hann er fljótur að senda á Óla Val Ómarsson sem tekur sprettinn upp vinstri kantinn og keyrir inn að marki Fram og setur boltann í fjarhornið framhjá Ólafi Íshólm Ólafssyni, markmanni Fram. Virkilega smekklega gert hjá Óla Val.
Eftir þetta var Breiðablik meira með boltann en leikmenn Fram áttu þó sínar skyndisóknir en náðu aldrei að koma sér í alvöru færi. Það var helst eftir hornspyrnur Fram að það skapaðist hætta við mark gestanna en heimamenn náðu ekki að nýta sér það. Það var svo á 38. mínútu leiksins sem Breiðablik komst í 2:0 en þá átti Höskuldur Gunnlaugsson góða sendingu á Aron Bjarnason á hægri kantinum sem setti fastan bolta fyrir mark Fram og þar kom Tobias Thomsen á ferðinni og setti boltann í netið af stuttu færi.
Það voru heimamenn sem byrjuðu betur í seinni hálfleik og það munaði litlu að Kyle McLagan minnkaði muninn fyrir Fram á 52. mínútu leiksins en þá fékk hann sendingu inn á markteiginn en skot hans var beint á Anton Ara.
Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Már Ægisson svipað færi og það fór sömu leið eða beint í hendurnar á Antoni Ara. Á 63. mínútu fékk Kennie Chopart svo gott færi en aftur var Anton Ari vel með á nótunum og varði skallann frá Kennie.
Það var síðan loksins á 72. mínútu að heimamenn náðu að koma boltanum í netið en eftir hornspyrnu Fram var mikill hamagangur í teig Breiðabliks og boltinn barst út á Simon Tibbling sem lét vaða á markið en skotið fór í varnarmann og boltinn datt fyrir fætur Sigurjóns Rúnarssonar sem setti boltann í netið.
Þetta gaf leikmönnum Fram greinilega mikinn kraft því aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Kennie Chopart metin með góðu skoti fyrir utan teiginn. Það var svo Guðmundur Magnússon sem kom Fram í 3:2 á 80. mínútu leiksins en hann var vel með á nótunum eftir að Anton Ari hafði varið skot frá Vuk og setti boltann í markið af stuttu færi. Guðmundur var svo aftur á ferðinni á 83. mínútu leiksins en þá missti Viktor Örn boltann frá sér og Guðmundur nýtti sér það svo sannarlega og vippaði skemmtilega yfir Anton Ara og tryggði Fram 4:2 sigur í ótrúlegum leik.
Þessi úrslit þýða að bæði lið eru með þrjú stig eftir tvær umferðir í Bestu deild karla.
Um næstu verður spilað í Mjólkurbikarnum en á laugardaginn á Fram heimaleik gegn FH í 32-liða úrslitum. Breiðablik spilar einnig á heimavelli í 32-liða úrslitum en mótherjar þeirra verða annað hvort RB eða Fjölnir en þau lið mætast á mánudaginn um það hvort liðið spilar við Breiðablik á Kópavogsvelli á föstudaginn klukkan 19:15.
Næsti leikur Fram í Bestu deildinni er útileikur við ÍBV en sá leikur fer fram fimmtudaginn 24. apríl klukkan 17:00. Breiðablik á aftur á móti heimaleik við Stjörnuna miðvikudaginn 23. apríl klukkan 19:15.