Víkingur vann afar sannfærandi sigur á KA í Víkinni í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld, 4:0. Víkingur er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir en KA er með eitt stig.
Staðan í leiknum var orðin 3:0 eftir rúmlega 20 mínútur og var leiknum því svo gott sem lokið í fyrri hálfleik eftir frábæra byrjun Víkings. Víkingur var án margra lykilmanna en Oliver Ekroth, Gunnar Vatnhamar, Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Elís Þrándarson og Nikolaj Hansen voru meðal annarra ekki með í kvöld.
Fyrsta mark leiksins kom strax á þriðju mínútu. Víkingar spiluðu boltanum þá frábærlega sín á milli í vítateignum sem endaði með því að Valdimar Þór Ingimundarson átti skot utarlega úr teignum sem fór af varnarmanni og í netið.
Á 14. mínútu tvöfölduðu Víkingar svo forystuna og aftur var Valdimar á ferðinni. Viktor Örlygur Andrason átti þá frábæra sendingu í gegn á Valdimar sem kláraði virkilega vel undir Steinþór Má í markinu. Valdimar hins vegar meiddist við það að skora markið og varð að fara af velli. Bættist hann þar með á afar langan meiðslalista Víkings.
Þriðja markið kom svo á 24. mínútu. Karl Friðleifur Gunnarsson fékk þá allan þann tíma sem hann vildi til að rekja boltann að teig KA manna og smella honum í vinstra hornið. Varnarmenn KA algjörlega týndir og svo virtist Steinþór Már eiga að gera betur í markinu.
Eftir þriðja markið virtust heimamenn slaka örlítið á og meira jafnvægi komst í leikinn. Viðar Örn Kjartansson varð að fara af velli vegna meiðsla en fátt annað markvert gerðist fram að hálfleik.
Vonir KA-manna urðu svo endanlega að engu á 54. mínútu. Stígur Diljan Þórðarson, sem kom inná í fyrri hálfleik fyrir Valdimar, setti þá pressu á Hans Viktor Guðmundsson í öftustu línu KA, vann af honum boltann og potaði honum í gegn á Helga Guðjónsson sem kláraði auðveldlega framhjá Steinþóri.
Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks en Víkingar voru samt sem áður töluvert betri aðilinn áfram. Helgi Guðjónsson fékk kjörið tækifæri til að skora fimmta markið en klikkaði fyrir opnu marki eftir góðan undirbúning Atla Þórs Jónassonar.
Eftir því sem leið á leikinn virtust bæði lið hreinlega vera farin að bíða eftir því að Vilhjálmur Alvar Þórarinsson flautaði leikinn af. Víkingar þurftu því ekki að hafa mikið fyrir því að sigla fjögurra marka sigri í höfn.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.