Bandaríska knattspyrnukonan Mackenzie Smith er fyrirliði Fram, sem leikur sem nýliði í Bestu deildinni í ár.
Smith gekk til liðs við Fram fyrir síðasta tímabil og hjálpaði liðinu að komast upp úr 1. deildinni. En hvernig endaði hún á Íslandi?
„Það var svolítið handahófskennt. Ég útskrifaðist úr háskóla í desember 2023 og ég fékk mér umboðsmann eftir útskriftina. Ég átti myndsímtal við fulltrúa Fram innan við tveimur vikum eftir að ég réði umboðsmanninn minn og í janúar var ég flutt til Íslands.
Þetta tók ansi fljótt af! Sem var fyndið því ég hafði aldrei áður farið út fyrir landsteina Bandaríkjanna og svo var ég skyndilega flutt til Íslands!“ útskýrði Smith í samtali við mbl.is.
Hún hafði einungis leikið í bandaríska háskólaboltanum áður en skiptin til Fram komu til. Smith kvaðst kunna afar vel við sig á Íslandi.
„Ég hef elskað veru mína hér. Þetta er svo frábrugðið öllu sem ég hef nokkru sinni séð séð áður og er vön. Það er svolítið klikkað að mér fannst þetta svo öðruvísi og svo nýtt á síðasta ári en nú líður mér eins og Ísland sé annað heimili mitt. Það er klikkað hvernig þetta breytist allt saman.“
Fram hafnar í 9. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Fram heimsækir Þrótt í Laugardalinn í fyrstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 18 á þriðjudag.