Vestri og FH mættust í 2. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Ísafirði klukkan 14 í dagog endaði leikurinn með sterkum sigri heimamanna, 1:0
Aðstæður á Ísafirði voru ekki þær bestu. Hitastig um frostmark en í vindkælingu -6 gráður og vindur um 7 metrar.
Það verður seint sagt að fyrri hálfleikurinn var einhver skemmtun. Leikurinn bauð ekki upp á mörg færi og var lokaður. Heimamenn voru þó ívið sterkari þegar leið á hálfleikinn og Diego Montiel og Daði Berg Jónsson fengu ágætis skotfæri, en nýttu þau ekki.
Það var svo á 38 mínútu sem heimamenn komust yfir. FH tapaði boltanum á miðjum vellinum og Vestri keyrði af stað í sókn. Anton Kralj kom boltanum á Daða sem snéri Böðvar Böðvarsson af sér og komst í gegn. Hann setti boltann síðan snyrtilega fram hjá Mathias Rosenorn, staðan 1:0 fyrir Vestra.
Fyrri hálfleikurinn fjaraði dálítið út eftir þetta, en nokkrir pústrar voru. Verðskulduð forysta heimamann í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var lokaður og lítið markvert gerðist. Liðsmenn FH reyndu hvað þeir gátu að jafna en sköpuðu sér lítið og voru í raun aldrei líklegir til að jafna.
Vestra-menn voru hins vegar frábærir í leiknum sem spilar inn í hvað FH gerði lítið. Fyllilega verðskuldaður sigur Vestra, sem eru komnir með 4 stig í fyrstu 2 leikina en FH er enn án stiga.