Ef ég hefði hatt tæki ég að ofan

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálf­ari KR, var nokkuð bratt­ur eft­ir jafn­tefli við Val, 3:3, í rosa­leg­um leik í 2. um­ferð Bestu deild­ar karla í knatt­spyrnu í kvöld.

„Það er margt hægt að segja eft­ir svona leik. Það er hægt að segja að þetta hafi verið það minnsta sem við átt­um skilið úr þess­um leik. Mér fannst við, að und­an­skild­um síðasta stund­ar­fjórðung fyrri hálfleiks þar sem Vals­menn voru mjög sterk­ir, vera betri aðil­inn. Ég er sér­stak­lega stolt­ur af liðinu hvernig það tókst á við þær áskor­an­ir sem þessi leik­ur færði okk­ur upp í hend­urn­ar.

Varn­ar­lín­an okk­ar er hrist til þris­var sinn­um í leikn­um, menn þurfa að spila út úr stöðum og ung­ir leik­menn koma inn og gera sig virki­lega gild­andi. Við lend­um und­ir eft­ir að hafa fund­ist við vera betri aðil­inn, jöfn­um svo leik­inn og erum áfram sterk­ari aðil­inn. Svo kem­ur þriðja markið og þá hefði verið rosa­lega auðvelt að hætta en ég upp­lifði mjög sterkt, sem var mjög öfl­ugt, trúna sem leik­menn höfðu á því að það væri ekk­ert annað í stöðunni en að fara upp og ná í markið.“

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR.
Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálf­ari KR. Ljós­mynd/​Krist­inn Steinn

Val­ur komst í 3:2 í leikn­um á 89. mín­útu en þá færðist mik­ill kraft­ur yfir KR-liðið sem náði að lok­um að jafna á 10. mín­útu upp­bót­ar­tím­ans.

„Ég upp­lifði það mjög sterkt að við vær­um að fara að jafna en það get­ur auðvitað vel verið að ég hafi verið með eitt­hvað und­ar­leg­an lest­ur á þessu. Það er það sem maður tek­ur út úr þess­um leik. Það er al­veg sama hvað menn reyna að tala niður Valsliðið og tala um hvað allt sé þungt og erfitt hjá þeim, þá er þetta frá­bær­lega mannað og feiki­lega öfl­ugt lið. Það að við kom­um tvisvar til baka, eft­ir allt sem við þurft­um að glíma við, seg­ir mikið um þenn­an hóp. Ef ég hefði hatt tæki ég að ofan fyr­ir þeim. Ég er ekk­ert eðli­lega stolt­ur og hreyk­inn af þess­um strák­um.“

Varn­ar­lína KR var þunn­skipuð fyr­ir leik en bæði Finn­ur Tóm­as Pálma­son og Ástbjörn Þórðar­son meidd­ust í leikn­um. Þá fór Gyrðir Hrafn Guðbrands­son einnig af velli. Gabrí­el Hrann­ar Eyj­ólfs­son og Atli Sig­ur­jóns­son virt­ust vera orðnir miðverðir liðsins síðasta kort­erið.

„Það sem er flókið er þegar maður byrj­ar með eitt­hvað miðvarðapar og vill helst ekk­ert vera að skipta þeim út. Þar er stöðug­leiki, þetta er hluti af hryggj­arsúl­unni. Þegar maður þarf að skipta út ein­um, svo öðrum og svo ertu bú­inn að færa hægri bakvörðinn í miðvörðinn en þarft að skipta hon­um út líka, það er erfitt.

Ég vil samt segja að mér fannst Gabrí­el Hrann­ar meiri­hátt­ar góður í dag. Það skipti engu máli hvaða hlut­verk ég setti hann í, hann leysti þau öll. Við eig­um KÁ og FH í næstu leikj­um og ef við höld­um sama haf­sentap­ari er þetta ekk­ert vesen. Þá get­um við sett ligg­ur við hvern sem er í haf­sent vegna þess að þá er kom­inn ein­hver stöðug­leiki. Það er flókið að þurfa að breyta og hræra mikið í varn­ar­lín­unni í leikn­um.

Þetta hafði samt ekk­ert mik­il áhrif á okk­ur í dag. Við vor­um al­veg jafn opn­ir eða jafn lítið opn­ir, eft­ir því hvernig þú lít­ur á það. Við vor­um jafn­vel betri og ekki jafn opn­ir seinni hluta leiks­ins. Þetta er bara eins og þetta er, maður get­ur vor­kennt sjálf­um sér hvað það er mikið af meiðslum en á end­an­um snýst þetta bara um að finna lausn­ir. Stund­um geng­ur það upp og stund­um ekki.

Við feng­um býsna margt í dag sem ég held að sé gott vega­nesti fyr­ir framtíðina. Mjög ung­ir menn komu inn og gerðu sig gild­andi, Sig­urður Breki spilaði 90 mín­út­ur og Al­ex­and­er Rafn kom inn í erfiðri stöðu og leysti það vel. Þetta er millj­ón króna virði, fyr­ir mig sem þjálf­ara að sjá þessa ungu menn þrosk­ast um fimm ár á stutt­um tíma.“

Gabrí­el Hrann­ar Eyj­ólfs­son gekk til liðs við KR í vet­ur frá Gróttu. Hann er upp­al­inn í KR og ein­hverj­ar efa­semdaradd­ir voru um hvort Gabrí­el væri nægi­lega góður fyr­ir efstu deild en hann hef­ur farið held­ur bet­ur vel af stað.

Gabríel Hrannar Eyjólfsson með boltann í leiknum í kvöld.
Gabrí­el Hrann­ar Eyj­ólfs­son með bolt­ann í leikn­um í kvöld. mbl.is/​Eyþór

„Ég átti ekki von á því að þetta myndi byrja svona vel. Ég nátt­úr­lega sæki Gabrí­el bæði sem leik­mann og þjálf­ara, ég þekki hann vel og hann er ein­hver ynd­is­leg­asta mann­eskja sem ég hef kynnst. Svo er hann bara frá­bær í fót­bolta og meiri­hátt­ar sterk­ur karakt­er. Hann leiddi liðið áfram í kvöld og þarf ekk­ert fyr­irliðaband til þess. Þetta er fal­legt, dreng­ur sem fór úr KR án þess að spila meist­ara­flokks­leik, er núna kom­inn aft­ur og er bara geggjaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka