Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, var nokkuð brattur eftir jafntefli við Val, 3:3, í rosalegum leik í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
„Það er margt hægt að segja eftir svona leik. Það er hægt að segja að þetta hafi verið það minnsta sem við áttum skilið úr þessum leik. Mér fannst við, að undanskildum síðasta stundarfjórðung fyrri hálfleiks þar sem Valsmenn voru mjög sterkir, vera betri aðilinn. Ég er sérstaklega stoltur af liðinu hvernig það tókst á við þær áskoranir sem þessi leikur færði okkur upp í hendurnar.
Varnarlínan okkar er hrist til þrisvar sinnum í leiknum, menn þurfa að spila út úr stöðum og ungir leikmenn koma inn og gera sig virkilega gildandi. Við lendum undir eftir að hafa fundist við vera betri aðilinn, jöfnum svo leikinn og erum áfram sterkari aðilinn. Svo kemur þriðja markið og þá hefði verið rosalega auðvelt að hætta en ég upplifði mjög sterkt, sem var mjög öflugt, trúna sem leikmenn höfðu á því að það væri ekkert annað í stöðunni en að fara upp og ná í markið.“
Valur komst í 3:2 í leiknum á 89. mínútu en þá færðist mikill kraftur yfir KR-liðið sem náði að lokum að jafna á 10. mínútu uppbótartímans.
„Ég upplifði það mjög sterkt að við værum að fara að jafna en það getur auðvitað vel verið að ég hafi verið með eitthvað undarlegan lestur á þessu. Það er það sem maður tekur út úr þessum leik. Það er alveg sama hvað menn reyna að tala niður Valsliðið og tala um hvað allt sé þungt og erfitt hjá þeim, þá er þetta frábærlega mannað og feikilega öflugt lið. Það að við komum tvisvar til baka, eftir allt sem við þurftum að glíma við, segir mikið um þennan hóp. Ef ég hefði hatt tæki ég að ofan fyrir þeim. Ég er ekkert eðlilega stoltur og hreykinn af þessum strákum.“
Varnarlína KR var þunnskipuð fyrir leik en bæði Finnur Tómas Pálmason og Ástbjörn Þórðarson meiddust í leiknum. Þá fór Gyrðir Hrafn Guðbrandsson einnig af velli. Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Atli Sigurjónsson virtust vera orðnir miðverðir liðsins síðasta korterið.
„Það sem er flókið er þegar maður byrjar með eitthvað miðvarðapar og vill helst ekkert vera að skipta þeim út. Þar er stöðugleiki, þetta er hluti af hryggjarsúlunni. Þegar maður þarf að skipta út einum, svo öðrum og svo ertu búinn að færa hægri bakvörðinn í miðvörðinn en þarft að skipta honum út líka, það er erfitt.
Ég vil samt segja að mér fannst Gabríel Hrannar meiriháttar góður í dag. Það skipti engu máli hvaða hlutverk ég setti hann í, hann leysti þau öll. Við eigum KÁ og FH í næstu leikjum og ef við höldum sama hafsentapari er þetta ekkert vesen. Þá getum við sett liggur við hvern sem er í hafsent vegna þess að þá er kominn einhver stöðugleiki. Það er flókið að þurfa að breyta og hræra mikið í varnarlínunni í leiknum.
Þetta hafði samt ekkert mikil áhrif á okkur í dag. Við vorum alveg jafn opnir eða jafn lítið opnir, eftir því hvernig þú lítur á það. Við vorum jafnvel betri og ekki jafn opnir seinni hluta leiksins. Þetta er bara eins og þetta er, maður getur vorkennt sjálfum sér hvað það er mikið af meiðslum en á endanum snýst þetta bara um að finna lausnir. Stundum gengur það upp og stundum ekki.
Við fengum býsna margt í dag sem ég held að sé gott veganesti fyrir framtíðina. Mjög ungir menn komu inn og gerðu sig gildandi, Sigurður Breki spilaði 90 mínútur og Alexander Rafn kom inn í erfiðri stöðu og leysti það vel. Þetta er milljón króna virði, fyrir mig sem þjálfara að sjá þessa ungu menn þroskast um fimm ár á stuttum tíma.“
Gabríel Hrannar Eyjólfsson gekk til liðs við KR í vetur frá Gróttu. Hann er uppalinn í KR og einhverjar efasemdaraddir voru um hvort Gabríel væri nægilega góður fyrir efstu deild en hann hefur farið heldur betur vel af stað.
„Ég átti ekki von á því að þetta myndi byrja svona vel. Ég náttúrlega sæki Gabríel bæði sem leikmann og þjálfara, ég þekki hann vel og hann er einhver yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst. Svo er hann bara frábær í fótbolta og meiriháttar sterkur karakter. Hann leiddi liðið áfram í kvöld og þarf ekkert fyrirliðaband til þess. Þetta er fallegt, drengur sem fór úr KR án þess að spila meistaraflokksleik, er núna kominn aftur og er bara geggjaður.“