Mackenzie Smith, fyrirliði Fram í knattspyrnu, segir mikla eftirvæntingu ríkja hjá liðinu þar sem kvennaliðið mun í ár spila í efstu deild í fyrsta sinn í 37 ár.
„Ég held að það sé ekki aukin pressa heldur aðallega spenna. Við fáum að vera hluti af þessu sögulega liði. Ég held að því fylgi ekki pressa en það er mikil spenna í kringum liðið og því hvaða þýðingu þetta gæti haft fyrir félagið í framtíðinni,“ sagði Smith í samtali við mbl.is.
Fram tryggði sér sæti í Bestu deildinni með því að hafna í öðru sæti 1. deildar á síðasta tímabili.
Smith var á meðal leikmanna sem styrktu liðið fyrir síðasta tímabil og er hún á því að þeir leikmenn sem Fram hefur samið við fyrir komandi tímabili muni koma til með að styrkja liðið afar mikið.
„Að mínu mati höfum við bætt við okkur mikið af mjög góðum leikmönnum. Þeir hafa allir aðlagast hópnum óaðfinnanlega. Maður getur ekki einu sinni sagt til um hvaða leikmenn eru nýir og hverjir voru hérna fyrir.
Ég tel nýju leikmennina styrkja okkur gífurlega og það er hluti ástæðunnar fyrir því að ég held að okkur muni takast ætlunarverk okkar í ár,“ sagði Smith, en markmiðið er að halda sætinu á meðal þeirra bestu.
Fram hafnar í 9. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Fram heimsækir Þrótt í Laugardalinn í fyrstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 18 annað kvöld.