Hlín Eiríksdóttir hefur gert góða hluti sem atvinnumaður í fótbolta undanfarna mánuði. Hún raðaði inn mörkum með Kristianstad í Svíþjóð og fór í kjölfarið til Leicester í ensku úrvalsdeildinni.
Hlín er fædd árið 2000, tveimur árum á undan yngri systur sinni Örnu Eiríksdóttur fyrirliða FH. Arna á sjálf tvo landsleiki og hún hefur notið þess að fylgjast með eldri systur sinni í atvinnumennskunni.
„Það hefur verið frábært. Það er magnað að fylgjast með henni eftir að hún fór í Leicester. Hún er komin á rosalega stórt svið og það er mikil fagmennska í kringum allt. Hún er búin að bæta sig alveg þvílíkt í atvinnumennskunni. Hún hefur svo fengið fleiri tækifæri með A-landsliðinu í kjölfarið. Það er frábært,“ sagði Arna við mbl.is.
Hún hefur ekki enn heimsótt Hlín til Englands en það er á stefnuskránni. „Ég er ekki búin að því en ég mun 100% fara. Það er bara erfitt þegar tímabilið okkar er að fara af stað. Maður er lítið að komast í frí eftir áramót. Við fjölskyldan styðjum hana að sjálfsögðu vel,“ sagði Arna.
FH var í sjöunda sæti í spá Morgunblaðsins sem var birt í fimmtudagsblaðinu. Liðið fær verðugt verkefni í 1. umferðinni, útileik gegn Val á miðvikudagskvöld klukkan 18.