Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls í knattspyrnu, hefur spilað með uppeldisfélaginu allan sinn feril og aldrei hugsað sér til hreyfings.
„Ég held að það hafi nú aldrei komið neitt upp þannig hjá mér að ég gæti leitað til þess heldur. Það er nú aðallega það að mér líður rosalega vel í Skagafirðinum. Fjölskyldan mín er þar og Tindastóll er líka ákveðin fjölskylda fyrir mig.
Mér fyndist nú mjög erfið tilhugsun að fara eitthvað annað út bara út frá að vera að fara frá liðinu, að fara frá leikmönnunum. Þetta eru allt frábærir leikmenn og mig hefur aldrei langað eða hugsað: „Heyrðu nú fer ég bara.“
Það hefur aldrei komið upp hjá mér. En svo hafa kannski ekki boðist stór tækifæri til þess heldur. Það má alveg leyfa því að fylgja með en ég held nú að ástríðan fyrir þessu liði og þessum stelpum hafi stundum risið ofar öllu öðru,“ sagði Bryndís Rut, sem er þrítug, í samtali við mbl.is.
„Ég er búsett í Varmahlíð og á kærasta þar. Fjölskyldan mín býr rétt fyrir utan Varmahlíð og ég er í frábærri vinnu. Ég er smiður hjá Uppsteypu, sem er fyrirtæki sem byggir hús og aðrar byggingar,“ bætti hún við, en Varmahlíð er í um 23 kílómetra fjarlægð frá Sauðárkróki.
Heimili Bryndísar Rutar var annað af tveimur sem varð fyrir aurskriðu fyrir nokkrum árum. „Já, það var húsið mitt. Það var 2021, árið eftir Covid.“
Í ljósi þess að hún er smiður lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Bryndís Rut hafi einfaldlega lagfært húsið sitt sjálf.
„Já. Ég er svolítið heppin með fólkið í kringum mig. Ég á bræður sem eru líka smiðir, er úr stórri fjölskyldu og á fullt af góðum vinum þarna í firðinum sem komu og bökkuðu okkur svolítið upp í að klára þetta.
Við vorum í burtu í fimm daga. Við fengum ekki að fara að húsinu í tvo daga og svo vorum við á fullu í þrjá daga að gera og græja. Auðvitað tekur þetta á.
Ég man að við vorum að spila við Selfoss daginn eftir hérna heima og það var alveg mikið að gera og allt í gangi. En ég veit ekki, maður er bara svo heppinn með fólkið í kringum sig,“ sagði hún að lokum.
Tindastóll hafnar í 8. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Tindastóll mætir nýliðum FHL á Sauðárkróki í fyrstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 18 á miðvikudag.