Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir leikur í efstu deild kvenna í fótbolta á komandi tímabili eftir öruggan sigur í 1. deild á síðasta ári.
Mikaela Nótt Pétursdóttir kom til félagsins að láni frá Breiðabliki á dögunum en annars hefur gengið illa að sannfæra leikmenn af höfuðborgarsvæðinu að koma austur.
„Það er mjög erfitt að fá íslenska leikmenn. Stjórnin og Kalli (Björgvin Karl Gunnarsson þjálfari) eru búin að reyna og reyna en það gengur illa.
Það væri hollt og gott fyrir alla að prófa að taka eitt sumar úti á landi. Það er langbesta veðrið fyrir austan, frábær félagsskapur og ýmislegt í boði,“ sagði Rósey Björgvinsdóttir fyrirliði FHL í samtali við mbl.is.
Gríðarleg ferðalög fylgja liðinu, þar sem sjö af tíu liðum deildarinnar eru frá höfuðborgarsvæðinu. Aðeins Þór/KA, Tindastóll og FHL eru frá landbyggðinni. Rósey kvartar ekki yfir ferðalögunum.
„Þetta er bara klukkutíma flug suður og svo aftur heim um kvöldið. Fyrir okkur sem erum uppaldar er þetta bara daglegt líf. Þetta truflar mig alls ekki,“ sagði hún.
Rósey er í háskóla í Reykjavík og hafði því ekki hitt liðsfélaga sína í mánuð á meðan á viðtalinu stóð. Hún á ekki von á öðru en að nær allir leikmenn liðsins séu klárir í fyrsta leik gegn Tindastóli á útivelli, þótt Katrín Edda Jónsdóttir sé enn að jafna sig á langvarandi meiðslum.
„Ég hef ekki hitt liðið í mánuð en mér skilst að allir séu heilir. Katrín Edda hefur verið meidd frá því síðasta vetur en hún er að komast í gang. Fyrir utan það veit ég ekki betur en að allir séu heilir,“ sagði Rósey en hún hefur fengið að æfa með Fram í vetur.
FHL hafnaði í botnsætinu í spá Morgunblaðsins sem birt var í fimmtudagsblaðinu. Fyrsti leikur FHL í efstu deild verður á útivelli gegn Tindastóli næstkomandi miðvikudag klukkan 18.