KR og Valur skildu jöfn, 3:3, í rosalegum leik í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Leikið var á heimavelli Þróttar í Laugardalnum þar sem heimavöllur KR í Vesturbænum er ekki tilbúinn.
KR er með 2 stig í sjöunda sæti deildarinnar á meðan Valsmenn eru í áttunda sætinu, einnig með 2 stig, en bæði lið eru án sigurs eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Leikurinn var mjög opinn og mikil skemmtun. Mikið var um færi og hefðu mörkin hæglega getað orðið enn fleiri.
KR-ingar fóru betur af stað í leiknum og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 12. mínútu. Gabríel Hrannar Eyjólfsson átti þá magnaðan sprett upp allan vinstri kantinn, kom boltanum fyrir þar sem Luke Rae hamraði honum í netið af stuttu færi.
Valsmenn hresstust aðeins við markið og fengu nokkur góð færi. Flest þeirra komu vegna klaufagangs í vörn KR-inga sem virkuðu ekki sannfærandi og á 40. mínútu fór Jónatan Ingi Jónsson mjög illa með Finn Tómas Pálmason á hægri kantinum. Jónatan fór með boltann upp að endamörkum, lyfti honum frábærlega yfir Halldór Snæ Georgsson úr þröngu færi og jafnaði metin í 1:1.
Í liði KR var 15 ára gamall drengur að spila sinn fyrsta leik í efstu deild. Sigurður Breki Kárason byrjaði á miðjunni hjá KR og lék allan leikinn,virkilega vel. Það er ljóst að framtíðin er björt hjá honum.
Atli Sigurjónsson fékk dauðafæri strax eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik. Hann komst þá inn í lausa sendingu Stefáns Þórs frá marki en setti boltann rétt framhjá markinu úr teignum. Stefán æddi út úr markinu og gerði Atla erfitt fyrir en Atli náði þó að lyfta boltanum yfir hann, en hitti ekki markið.
Á 53. mínútu fengu Valsmenn svo vítaspyrnu og enn voru KR-ingar sjálfum sér verstir. Liðið tapaði boltanum þá á stórhættulegum stað og allt galopnaðist fyrir Tryggva Hrafn Haraldsson hægra megin. Tryggvi keyrði inn á teiginn og lét vaða en Halldór Snær varði skotið beint út í teiginn. Tryggvi var fyrstur á frákastið sjálfur en var rifinn niður af Gyrði Hrafni Guðbrandssyni og vítaspyrna dæmd. Úr henni skoraði Patrick Pedersen af öryggi og kom Val í 2:1.
Varnarlína KR þegar korter var eftir var afar áhugaverð en hún var skipuð af Róberti Elís Hlynssyni, Gabríel Hrannari Eyjólfssyni, Atla Sigurjónssyni og Vicente Valor þar sem Gabríel og Atli voru miðverðir. Það virtist ekki skipta miklu máli því KR tók völdin á vellinum og uppskáru jöfnunarmark á 76. mínútu. Jóhannes Kristinn Bjarnason fékk boltann þá rétt utan teigs hægra megin, setti hann á vinstri fótinn og hamraði honum óverjandi upp í fjærhornið.
Fjörið var hins vegar ekki búið og enn eina ferðina voru það mistök KR-inga sem urðu þeim að falli. Á 89. mínútu vann Jónatan Ingi boltann af Vicente Valor í teig KR-inga og lagði hann þvert fyrir markið á Patrick Pedersen sem ýtti honum þvert fyrir markið. Sannkallað framherjamark hjá Dananum.
Dramatíkin var þó ekki búin enn. Á 9. mínútu uppbótartíma fékk KR aukaspyrnu við miðlínu og boltanum var spyrnt fyrir markið. Þegar Stefán markvörður Vals var við það að grípa boltann féll Aron Þórður Albertsson eftir baráttu við Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliða Vals. Helgi Mikael benti á punktinn og gaf Hólmari í leiðinni sitt annað gula spjald. Endursýning sýndi að líklega var brotið fyrir utan teig en vítapsyrna engu að síður dæmd.
Á punktinn steig Jóhannes Kristinn Bjarnason en hann skoraði af miklu öryggi og tryggði sínum mönnum stig í þessum ótrúlega leik.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.