Sigurður Breki Kárason sló í kvöld 31 árs gamalt met þegar hann hóf leik í byrjunarliði KR gegn Val í Bestu deild karla í fótbolta á Þróttarvelli í kvöld.
Sigurður er í liði KR aðeins 15 ára og 125 daga gamall og hann er yngsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla sem hefur leik í deildinni.
Eiður Smári Guðjohnsen var 15 ára og 250 daga gamall þegar hann var í byrjunarliði Vals gegn Keflavík í fyrstu umferð Íslandsmótsins árið 1994.
Sigurður er þó ekki yngsti KR-ingurinn sem hefur leikið í efstu deild. Alexander Rafn Pálmason lék 14 ára gamall og 147 daga gamall sem varamaður í deildinni í fyrra, með KR gegn ÍA, og er yngstur allra í sögu deildarinnar.
Þá lék Jón Arnar Sigurðsson 15 ára og 97 daga gamall með KR í deildinni árið 2022, sem varamaður.