Gabríel Hrannar Eyjólfsson, leikmaður KR, var nokkuð sáttur eftir dramatískt jafntefli við Val, 3:3, í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
„Þetta var skemmtilegur leikur og vonandi náðu áhorfendur að njóta þess að horfa á hann. Ég er ánægður með viðbrögðin hjá okkur eftir að hafa lent undir og lent í alls konar áföllum. Ég er sáttur með stig úr því sem komið var.“
KR lenti tvisvar undir í leiknum en kom til baka í bæði skiptin. Seinna skiptið var á 89. mínútu en samt tókst Vesturbæingum að ná í jafntefli.
„Já ég er ánægður með karakterinn. Það hefði verið auðvelt að svekkja sig og gefast upp en hrós á strákana, við stóðum okkur vel.“
Gabríel byrjaði leikinn sem vinstri bakvörður og átti risa þátt í fyrsta marki KR þegar hann átti frábæran sprett upp allan vinstri kantinn. Hann var síðan færður í miðvörð, líkt og Atli Sigurjónsson, vegna meiðsla í varnarlínunni en þeir félagar leystu verkefnið með miklum sóma.
„Þetta var bara skemmtilegt. Við reynum alltaf að spila skemmtilegan fótbolta og það er alveg sama í hvaða stöðu maður spilar. Við reynum bara að njóta þess og vonandi hjálpar það okkur í framtíðinni.“
Það var gífurleg dramatík á lokamínútum leiksins en KR-ingar fengu víti á 9. mínútu uppbótartímans þegar Hólmar Örn Eyjólfsson braut á Aroni Þórði Albertssyni. Endursýning sýndi að brotið átti sér stað fyrir utan teig en þess skal getið hér að Gabríel var líklega ekki búinn að sjá endursýninguna þegar hann var dreginn í viðtal.
„Mér sýndist hann bara hafa gefið Aroni Þórði olnbogaskot og hann dæmi réttilega víti. Mér sýndist þetta vera hárréttur dómur og ég var í nokkuð góðri stöðu til að sjá það.“
Gabríel gekk til liðs við uppeldisfélagið KR í vetur frá Gróttu og hefur farið virkilega vel af stað.
„Það hefur gengið mjög vel og ég er mjög ánægður með þetta. Þetta er samt auðvitað bara rétt að byrja, ég er staðráðinn í að halda áfram, gera mitt besta og svo gerist það sem gerist.“