Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var svekktur eftir dramatískt jafntefli við KR, 3:3, í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
„Þetta er mjög svekkjandi tilfinning. Ég er svekktur því við tökum ekki öll þrjú stigin með heim á Hlíðarenda af því að dómarinn gerir mjög stór mistök. Hann dæmir víti sem er ekki víti á 99. mínútu, það er 100% fyrir utan teig og sést bara mjög vel. Svo var líka brot rétt á undan sem hann dæmir ekki á og óskiljanlegt að uppbótartíminn fari úr sex mínútum í tíu mínútur.
Annars var ég mjög ánægður með frammistöðuna. Það er alltaf hasar í leikjum á milli KR og Vals og undanfarin ár hefur þetta verið mikil skemmtun fyrir áhorfendur. Mér fannst við betri aðilinn í leiknum í kvöld og fengum nokkrar kjörstöður til að setja fjórða markið og ganga frá leiknum, það svíður aðeins. Strákarnir mínir áttu sigurinn skilið í kvöld.“
Valur komst 3:2 yfir á 89. mínútu en liðið náði ekki að halda út og sigla sigrinum í höfn. Jöfnunarmarkið kom úr vítaspyrnu sem var að öllum líkindum rangur dómur.
„Það er ekkert umdeildur dómur, þetta er bara fyrir utan teig. Svo bætir hann sex mínútum við en uppbótartíminn verður að tíu mínútum. Þetta er ekkert umdeilt.“
Valur er með tvö stig eftir fyrstu tvær umferðirnar eftir jafntefli við Vestra og KR.
„Við erum bara bjartsýnir fyrir framhaldinu. Þetta var flott frammistaða í kvöld og mér fannst frammistaðan á móti Vestra góð líka. Það vantar herslumuninn hjá okkur til að vinna báða leikina og vera þá með sex stig. Við höldum bara okkar vinnu áfram og okkar vegferð sem hófst í janúar. Við erum að gera góða hluti, liðið er á uppleið. Það er mikil stemning í hópnum og mikil stamstaða.“
Aðspurður um hvort einhverjar styrkingar væru á leið í Val gaf Tufa ekki skýr svör en talaði um að menn þyrftu að ná heilsu.
„Ég er mjög ánægður með hópinn. Styrkingin væri að fá alla til baka úr meiðslum. Það vantaði menn í dag sem við vorum að missa í meiðsli en ég er fyrst og fremst að hugsa um að fá alla menn heila og klára. Við erum með geggjaðan hóp.“