Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar úr Reykjavík, var sátt með sterkan 3:1-sigur á nýliðum Fram í fyrstu umferð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu.
„Þetta var kaflaskiptur leikur. Við vorum mjög sterkar á tímum og þær voru ekki að komast yfir miðju en svo í seinni hálfleik dettum við smá niður og fáum markið á okkur en ég er ánægð að við náðum inn þriðja markinu og drápum leikinn,“ sagði Álfhildur í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
„Það er léttir að vera búin með fyrsta leikinn og vinna hann. Það er strax betri byrjun en í fyrra og það er gott.“
Þetta er annað tímabil þeirra með Ólaf Kristjánsson sem þjálfara liðsins en í fyrra vann liðið ekki leik fyrr en í sjöundu umferð. Í ár er allt annað að sjá liðið og fyrsti sigurinn kom í fyrsta leik.
„Það er góð stemning í liðinu og gaman. Óli er að vinna sína vinnu vel og búinn að undirbúa liðið vel og ég held að þetta fari betur af stað í ár en í fyrra.“
Katie Cousine kom aftur í liðið eftir stutt stopp á Hlíðarenda og Þróttur fékk einnig Þórdísi Elvu Ágústdóttur frá Vaxjö í Svíþjóð. Miðjan hjá Þrótti lítur virkilega vel út fyrir sumarið.
„Það er geðveikt að spila með þeim. Það er auðvelt að senda á þær, þær missa lítið boltann og eru frábærir leikmenn, mjög gott að hafa þær.“
Liðið lenti í fimmta sæti í deildinni í fyrra og vann aðeins átta leiki af 23 en ætlar að gera betur í ár.
Hver eru markmið ykkar fyrir tímabilið?
„Það er bara þetta klassíska að gera betur í fyrra en við viljum samt ná aðeins Val og Breiðablik og vera í toppsætunum, jú, það er alltaf markmiðið að vinna.“