„Við bárum of mikla virðingu fyrir Þrótturum með boltann og leyfðum þeim að komast aðeins of mikið í þeirra spil,“ sagði Óskar Smári Haraldsson eftir 3:1-tap gegn Þrótti í 1. umferð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.
„Leikurinn spilaði eins og við bjuggumst við að einhverju leyti. Eins og við vissum fyrir leikinn vorum við að spila gegn mjög góðu Þróttaraliði sem er gott í að færa boltann hratt á milli kanta og við náðum ekki að stoppa það og úr því komu tvö mörk.
Í seinni hálfleik vorum við líkari sjálfum okkur, komum okkur aftur inn í leikinn með frábæru marki og erum að banka en sendum svolítið marga í sókn undir lokin og fáum á okkur mark í staðinn og því fór sem fór,“ sagði Óskar í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Fram náði að minnka muninn í 2:1 á 75. mínútu sem setti spennu í leikinn.
„Ég var bara bjartsýnn á að fá þrjú stig. Ég hef alltaf trú á því að þú getir unnið leik. Þriðja markið er mjög mikilvægt mark og við náðum að skora það og ég hafði trú á að við gætum tekið þrjú stig, það var nóg eftir af leiknum og mörk breyta leikjum. Ég átti von á því að þetta mark myndi vera „crusial“ en svo setja Þróttarar síðasta markið í leiknum þegar það var lítið eftir og þá fór maður að sætta sig við það að fara tómhentur heim.“
Aðeins fjórir leikmenn í Fram eiga fleiri en tíu leiki í efstu deild og samkvæmt urslit.net er meðaldurinn í liðinu 23 ára en liðið er með sterka útlendinga og aðra leikmenn og Óskar hefur mikla trú á hópnum.
„Við erum með ungan og óreyndan hóp en við erum með hungur og gæði og með leikmenn sem eru töffarar og eru tilbúnar í þetta og hafa sýnt mér það í vetur að þær eru mikils megnugar, og ég er ótrúlega glaður með hópinn.
Þær lögðu sig allar fram í dag, sem var til fyrirmyndar, og hlupu fram að 90 mínútu plús, og við þurfum að gera það í hverjum einasta leik til að eiga möguleika á að vinna hann.
Það er reynsluleysi og aldur sem hefur auðvitað áhrif en á móti kemur hungur og „attitude“ sem er til staðar og ég hef meiri trú á því heldur en hinu.“
Fram er með stór markmið fyrir sumarið en þetta er fyrsta sinn sem liðið er í efstu deild frá 1988.
„Ég er búinn að segja það alls staðar að við erum með fullt af markmiðum í gangi en fyrst og fremst ætlum við að vera betri í því sem við erum að gera. Við ætlum að þróa okkar leikstíl áfram og ætlum að vera betri í öllum þáttum leiksins sem við teljum okkur þurfa að vera betri í, það er fyrst og fremst markmiðið.
Þegar kemur að sætisskipan þá viljum við vera eins ofarlega og hægt er stelpurnar og við setjum okkur markmið að vera í topp sex en svo kemur það bara í ljós hvar við endum.“