Valur og FH gerðu í kvöld markalaust jafntefli í 1. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta. Flestir spá Val góðu gengi og FH um miðja deild og komu úrslitin því nokkuð á óvart.
Valskonur fengu betri færi í fyrri hálfleik. Arnfríður Auður Arnarsdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir fengu allar góð færi í teig FH-inga en Aldís Guðlaugsdóttir stóð vaktina mjög vel og þá tókst Valskonum oft illa að hitta á markið.
Elísa Lana Sigurjónsdóttir átti bestu tilraun FH í fyrri hálfleik á 9. mínútu en Tinna Brá Magnúsdóttir varði vel frá henni eftir sprett. Var því ekkert skorað í fyrri hálfleik.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir fékk dauðafæri fyrir Val strax í upphafi seinni hálfleiks en hún hitti ekki boltann fyrir opnu marki eftir sendingu frá Fanndísi Friðriksdóttur. Jordyn Rhodes fékk svo úrvalsfæri á 71. mínútu en Aldís gerði mjög vel í að verja frá henni.
Hinum megin fékk Thelma Karen Pálmadóttir gott færi fyrir FH á 79. mínútu en hún lyfti boltanum yfir úr góðri stöðu í teignum. Eftir það gerðist lítið markvert og liðin skipta með sér stigunum.