„Okkur líst ótrúlega vel á komandi tímabil og það er kominn spenningur í alla,“ sagði Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, í samtali við mbl.is um komandi tímabil í Bestu deildinni í fótbolta.
„Við byrjum fyrr en áður og við erum nýkomnar úr vel heppnaðri æfingaferð á Spáni þar sem var mjög huggulegt. Við erum mjög spenntar,“ bætti hún við.
FH kom mörgum á óvart og endaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar sem nýliði árið 2023. Liðið endaði í sama sæti á síðasta ári en Arna vill taka næsta skref í ár og gera betur eftir að deildinni er skipt fyrir lokaumferðirnar.
„Ég held við séum klárlega með leikmannahópinn til að taka næsta skref. Síðustu tvö tímabil hafa verið á pari miðað við væntingar fram að skiptingu. Það hefur gengið verr eftir skiptingu. Það er klárt markmið að gera betur þar.
Við erum búnar að fá ótrúlega flottar styrkingar og svo eru þessar ungu sem stigu sín fyrstu skref í fyrra tilbúnar að taka meiri ábyrgð. Þær eru klárar að gera sig meira gildandi í deildinni. Leikmannahópurinn okkar er rosalega flottur fyrir komandi tímabil,“ sagði Arna.
FH var í sjöunda sæti í spá Morgunblaðsins sem var birt í fimmtudagsblaðinu. Liðið byrjar tímabilið á útivelli gegn Val í kvöld klukkan 18.