Tindastóll fékk nýliða FHL í heimsókn í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli í kvöld. Þetta er í fyrsta skipti í 30 ár sem lið frá Austurlandi er í efstu deild kvenna, heimakonur á sínu 3. tímabili í Bestu deildinni.
Spennustigið var hátt í fyrri hálfleiknum og kom það mikið niður á gæðum leiksins, mikið um baráttu og krafs út um allan völl. Nokkur hálffæri voru hjá báðum liðum en ekkert eiginlegt dauðafæri. Þrátt fyrir það var fyrri hálfleikurinn ágætis skemmtun og mikið líf var í báðum liðum.
Seinni hálfleikurinn byrjaði á svipaðan hátt og sá fyrri endaði. Hins vegar í kringum 60. mínútu átti Woods góðan sprett upp allan völlinn og var komin í gegn en náði ekki skoti, markspyrna var dæmd. Við þetta kviknaði á heimakonum og þær þrýstu gestunum neðar og neðar og tóku öll völd. Það var svo á 71. mínútu sem Tindastóll komst yfir.
Woods fékk boltann inn í teig, lék á varnarmann FHL og kom boltanum á fjærstöngina þar sem María Björg mætti og settti boltann í netið. Staðan var 1:0 fyrir Tindastól.
Eftir markið hafði Tindastóll góða stjórn á leiknum og FHL var í raun aldrei nálægt því að jafna. Bæði lið komust í ágætis stöður en án þess að skapa sér almennileg færi. Gestirnir komust næst því á 78. mínútu þegar þær fengu hornspyrnu. Það var góð spyrna inn á teig en þær náðu ekki að koma boltanum í markið.
1:0-sigur Tindastóls var staðreynd og var hann fyllilega verðskuldaður. Heimakonur voru miklu betri í seinni hálfleik og héldu út leikinn og sigldu þessu heim. FHL átti ágætis spretti í leiknum en það fjaraði dálítið undan þessu hjá þeim í seinni hálfleik.